Gripla - 20.12.2013, Page 93
93
mætti uppskrift af að minnsta kosti hluta af bl. 69v.10 Bjarni Einarsson
fylgdi leiðsögn Jóns í rannsóknum sínum og segir frá niðurstöðum sínum
í útgáfunni frá 2001. Í eftirritum frá 17. öld er að finna texta úr mestum
hluta fremri dálks (69va) en ekki úr aftari dálki (69vb). Í eftirritin vantar
einnig texta úr sömu opnu bókarinnar á efra horni næstu síðu, 70rb.
Það er merkilegt að Finnur hafi getað lesið alllangan texta í Möðru
vallabók sem að miklum hluta var ólæsilegur þegar á 17. öld en svo virðist
sem sumum fræðimönnum hafi ekki líkað að þurfa að treysta lestri Finns í
blindni. Honum hefur verið vantreyst eins og nánar er lýst í þessari grein
og hefur áðurnefndum eftirritum jafnvel verið treyst betur, svo langt sem
þau ná.
Þrátt fyrir orð Jóns er hægt að lesa slitrur af texta á neðri hluta 69va, í
línum 23–41, á myndum sem teknar voru með útfjólubláu ljósi. Þetta sést
á uppskrift Bjarna Einarssonar sem sagt er frá hér aftar. Með því að nota
til viðbótar myndir teknar á ýmsum bylgjulengdum, sýnilegum og inn-
rauðum, má lesa textann á 69v að miklu leyti.
Íslensk skinnhandrit eru að jafnaði dekkri en víðast hvar annars staðar
og svo virðist sem innrauðar myndir geti sums staðar leitt í ljós meiri
texta á dökku skinni en sést í sýnilegu ljósi. Hér eru birtar innrauðar
myndir þessu til sönnunar en með þeim gefst loks færi á að meta lestur
Finns, meira en 125 árum síðar, meðal annars í samanburði við áðurnefnd
eftirrit. Innrauð myndataka fer fram eins og myndataka í sýnilegu ljósi
og er skaðlaus handritum. Þessi grein er um tilraun til að lesa bl. 69v og
torlæsilega staði á bl. 70r með notkun innrauðra ljósmynda og í henni er
leitast við að sannreyna það sem áður hefur verið lesið.
Í þessari grein er fyrst umfjöllun um þá hluta textans sem best sjást á
innrauðum myndum og aðrir en Finnur hafa skrifað upp að einhverju leyti.
Þar á eftir kemur umfjöllun um hægri dálk á síðu 69v sem Finnur hefur
einn skrifað upp, en síðan koma staðir þar sem litlar textaleifar sjást og
fylla verður í eyður með ágiskunum. Til að meta texta Finns var hann bæði
borinn saman við það sem lesa má á innrauðum myndum og þá texta sem
notaðir hafa verið í stað hans. Uppskrift Finns kemur vel út úr þessum sam-
anburði og kalla innrauðu myndirnar ekki á miklar leiðréttingar á henni.
Á innrauðum myndum er einnig að hluta til hægt að lesa 9 efstu línur
fremra dálks á bl. 69v, sem hvorki Finnur né aðrir hafa lesið áður.
10 jón Helgason, „Athuganir um nokkur handrit egils sögu,“ 143–44.
ofAn í soRtAnn