Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Blaðsíða 9
9
um að þetta marki stefnu að „mjög einfaldri lausn“, eins og Auerbach segir
(821), er eftirtektarvert að hann skuli ljúka verki sínu með því að leggja
áherslu á mikilvægi hinnar hnattrænu sýnar. Við lok heimsstyrjaldarinnar
hlaut slík sýn að vísu að vera ofarlega í huga margs friðelskandi fólks, en
hvernig getum við séð ummerki hennar á vettvangi lista og menningar?
Er ekki einnig hæpið að kenna þau umbrot sem Auerbach fjallar um við
ákveðna „aðferð“? Eða leynist kjarni hennar kannski í efasemdum um að
nokkur hefðbundin „framsetning veruleikans“ sé sjálfgefin eða búi yfir
náttúrulegum yfirburðum gagnvart öðrum? Það er hollt að rifja upp hver
sjónarhóll Auerbachs var fyrir um sjötíu árum, nú þegar hin hnattræna
sýn er einmitt mjög á döfinni í módernismafræðum og í viðleitni til að
kortleggja sögu módernismans. Sú hnattvæðing módernismans sem hæst
ber um þessar mundir er þó iðulega með öðrum hætti og án þeirrar form-
legu áherslu sem er lykilþáttur í sögulegum skilningi Auerbachs á þessum
róttæku nútímaaðferðum við framsetningu veruleikans.
Auerbach skrifaði Mimesis í sögufrægri borg sem borið hefur ýmis
nöfn og meðal annars verið kölluð Mikligarður; borg sem löngum hefur
myndað vegamót menningarheima. Frá skrifborði sínu í Istanbúl horfir
hann yfir sögu vestrænnar sagnalistar (þótt Íslendingar kunni að sakna
síns fornfræga þáttar í þeirri sögu) og hann velur bókinni þekkt einkunn-
arorð úr ljóði eftir Andrew Marvell: „Had we but world enough and time
…“ (gæfist okkur aðeins nægur heimur og tími). Verkin sem hann fjallar
um í lokakaflanum eru flest birt á þriðja áratug aldarinnar – þar er To the
Lighthouse í fyrirrúmi en einnig t.d. drepið á Ulysses (Ódysseif, 1922) eftir
James Joyce, À la recherche du temps perdu (Í leit að glötuðum tíma, 1913–
1927) eftir Marcel Proust og Les faux-monnayeurs (Falsarana, 1925) eftir
André Gide. Löngum hefur verið litið svo á að þær listrænu hræringar sem
Auerbach lýsir hafi mótast mjög af hildarleik fyrri heimsstyrjaldarinnar,
sem ýmsir litu á sem einskonar „syndafall“ vestrænnar siðmenningar. Viss
lykilatriði þessara hræringa hafa þó oft verið rakin allt til miðrar 19. aldar,
stundum til skáldsögunnar Madame Bovary eftir Gustave Flaubert, sem
birtist á bók 1857, og ljóðasafnsins Les Fleurs du mal (Blóm hins illa) eftir
Charles Baudelaire frá sama ári. Í óvenjulegum tengslum framsetningar
og inntaks í þessum verkum hafa sumir séð fyrirboða þess sem átti eftir
að gerast, þótt gjarnan sé litið svo á að sögulegra umskipta í bókmennta-
sögunni taki ekki að gæta í verulegum mæli fyrr en um 1890, eða jafnvel
ekki fyrr en um 1910, og að ýmis helstu „stórvirki“ módernismans komi
FRÁSAGNARKREPPUR MÓDERNISMANS