Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Síða 11
11
eftir miðja síðustu öld að hugtakið „módernismi“ kemst í almenna notkun
á ensku og Norðurlandamálunum, en á þýsku og frönsku létu menn sér
til skamms tíma nægja hugtakið „módern“ og svo „framúrstefnu“ sem og
heiti einstakra framúrstefnuhópa.7
Þegar kemur fram á miðja tuttugustu öld er þessi áhersla á nútímabók-
menntir jafnframt iðulega tengd stefnu í bókmenntafræði sem kennd er við
nýrýni (e. New Criticism). Slíkir rýnendur beina mjög sjónum að byggingu
og formrænni innri gerð verka og telja að þau reynist við nána skoðun
eða nærlestur (e. close reading) að verulegu leyti sjálfbær um merkingu og
gildi þeirra sé því ekki mjög háð endurspeglun ytri veruleika né sögulegri
skírskotun.8 Nútímaverk sem „leysir upp raunveruleikann í margfaldar
og fjölgildar endurspeglanir vitundar“, svo notað sé orðalag Auerbachs,
getur reynst einkar ríkulegt viðfang nýrýnenda, sem finna þetta „fjölgildi“
í þéttri textasmíð sem hvorki miðlar til lesanda venjubundinni eftirlík-
ingu (gr. mimesis) ytri veruleika né heldur söguþræði eða fléttu sem reynist
traustur ás í gegnum verkið.
Mér þykir viðeigandi að hefja þennan könnunarleiðangur í bók sem
skrifuð er við jaðar Evrópu á árum seinni heimsstyrjaldar. Þaðan gefst sýn
til aðdraganda módernismans og umbrota hans framan af 20. öld, en þessi
sjónarhóll ætti einnig að skerpa skilning á vægi módernismans í kjölfar
síðari heimsstyrjaldar og allt fram til okkar daga – því að sögu hans var
ekki lokið þegar Auerbach skrifaði Mimesis. Jafnframt eykst stöðugt vandi
þeirra sem leitast við að koma böndum á sögu þessara hræringa og getur sá
vandi minnt á stöðu lesandans í verkum hins „þokukennda“ veruleika sem
Auerbach fjallar um (819).
Fuglar og frásagnarhnútur
Meðal helstu einkenna módernískra bókmennta eru flækjur, niðurbrot
eða hrun frásagna. Þá er ekki endilega átt við rof og víxlun í röð frásagn-
7 Á spænsku á hugtakið „modernimso“ sér nokkra sögu, allt aftur til loka nítjándu
aldar, einkum í samhengi spænskumælandi bókmennta í Mið- og Suður-Ameríku.
Tengsl þessa módernisma við bókmenntir rómantíkur og symbólisma eru sterkari
en oft er gert ráð fyrir í umræðu um módernisma á ensku, en misjafnt er hvernig
menn túlka vægi „modernismo“ fyrir bókmenntaþróunina á 20. öld. Sjá Cathy L.
Jrade, „The Spanish-American Modernismo“, Modernism, bindi 2, ritstj. Ástráður
Eysteinsson og Vivian Liska, Amsterdam og Philadelphia: John Benjamins Pub-
lishing Company, 2007, bls. 817–830.
8 Um nýrýni sem mikilvægan bókmenntafræðilegan þátt í deiglu módernismahug-
taksins, sjá umfjöllun í bók minni The Concept of Modernism, bls. 9–18.
FRÁSAGNARKREPPUR MÓDERNISMANS