Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Page 13
13
sig“ semsé að einhverju leyti sjálfur en það þarf þó að huga nánar að því,
eins og segir í síðari hluta ljóðsins: „En nú kvað vera farið að stofna áhuga-
mannafélög til þess að skoða fuglaskoðendur, og finnst víst sumum að það
hljóti nú að vera nokkuð undarlegir fuglar sem það stunda. Og menn eru
þegar byrjaðir að flokka sig til að skyggna þá.“10
Fræðimenn komast vart hjá því að vera í slíku áhugamannafélagi und-
arlegra fugla sem skoða fuglaskoðendur. Það telst í sjálfu sér ekki til
nýmæla að líta þurfi til rannsóknasögunnar og flokkunarfræðinnar þegar á
að reyna að „skyggna“ hugtak sem reynist skipta miklu fyrir skilning okkar
á ákveðnum fyrirbrigðum og sögu þeirra. Þegar að er gáð reynast hugtök
í hugvísindum oft fjarri því að vera jafn kyrrstæðir viðmiðunarpunktar
og margir reikna með. Gjarnan fer það saman að þau eru ekki beintengd
tölfræðilega föstum mælieiningum og eru þó veigamikil í gildishlaðinni
umræðu. Þetta á við um hugtakið „módernismi“, eins og það hefur verið
notað um bókmenntir og aðrar listgreinar.11 Fyrir allmörgum árum sendi
ég frá mér bók sem ber heitið The Concept of Modernism. ég tók skýrt fram
í formálanum að þetta verk væri ekki sögulegt rit um módernismann.12
Það kom ekki í veg fyrir að einn eða tveir ritdómarar kvörtuðu yfir því að
bókin fjallaði ekki um sögu módernismans. Í endurliti sé ég að bæði höf-
undurinn og þessir ritdómarar höfðu rangt fyrir sér um þetta. Rannsókn
á tilurð, þróun og notkun lykilhugtaks er hluti af sögulegri könnun þeirra
fyrirbæra sem hugtakið nær yfir.
En ef módernismi er í senn viðfang og hugtak í og um bókmennta-
sögu jafnt sem listasögu, hvernig notum við hugtakið til að lesa fyrirbærin,
einkenni þeirra og samhengi, í rúmi og tíma? Þægilegast væri að líta á
módernisma sem hræringar er áttu sér stað á ákveðnu tímabili sem lauk
10 Stefán Hörður Grímsson, „Rannsókn“, Yfir heiðan morgun. Ljóð ’87 – ’89, Reykjavík:
Mál og menning, 1989, bls. 12.
11 Ef nota á hugtakið til að bera saman fyrirbæri í ólíkum listgreinum þarf að fara með
gát. Iðulega er hægt að benda á hliðstæður módernískra einkenna í bókmenntum,
tónlist, kvikmyndagerð og myndlist, en slíkur samanburður flækist hinsvegar
mjög þegar litið er til notkunar módernismahugtaksins í fræðilegri umfjöllun um
byggingarlist. Ekki auðveldar það heldur notkun hugtaksins „módernismi“ að
innan félagsvísinda og sagnfræði er það iðulega notað um skýringalíkön og rökleg-
ar leiðarsagnir („stórsögur“) um mannlegt atferli og samfélagsgerð nútímans, en
gjarnan er talið að módernismi í bókmenntum og ýmsum öðrum listgreinum snúist
gegn slíkum „frásögnum“. Hugtakið hefur þannig ferðast eftir ólíkum leiðum og
notkun þess getur stefnt ólíkum hópum fræðimanna í „árekstur“.
12 Ástráður Eysteinsson, The Concept of Modernism, bls. 5.
FRÁSAGNARKREPPUR MÓDERNISMANS