Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Síða 15
15
meginhöfunda, svo sem Rainer Maria Rilke, Paul Valéry, T.S. Eliot, Ezra
Pound, W.B. Yeats, Thomas Mann, Proust, Franz Kafka, James Joyce,
August Strindberg, Bertolt Brecht og Luigi Pirandello. Þarna er fjallað
um einkenni ýmissa verka en jafnframt dregin upp mynd af aðalhöfund-
um módernismans, semsagt hefðarveldi hans („kanóninum“). Einhverjir
kynnu jafnframt að álíta þetta mynd af „hámódernismanum“ (e. high mod-
ernism), en því hugtaki hefur oft brugðið fyrir í umræðunni á liðnum árum.
Þótt notkun þess sé iðulega losaraleg og skýringalaus, virðist orðið oftast
vísa til viðurkenndra lykilhöfunda módernismans á þessu tímabili.
Fjarlestur
Endurskoðun módernismans á upphafsárum 21. aldar einkennist af gagn-
rýni á bæði landfræði og hefðarveldi módernismans eins og það birtist til
dæmis í bók Bradburys og McFarlanes. Í nýlegum safnritum um módern-
ismann, sem vikið verður að síðar, hafa ýmsir bent á módernísk umbrot
utan alfaravegar þeirra vestrænu stórborga sem helst hafa verið í sviðsljós-
inu15 og jafnframt teflt fram öðrum höfundum og verkum en þeim sem
hafa verið mest áberandi í umræðunni. Slík endurskoðun felur oft í sér
að opna verður tímabilið í seinni endann og gera ráð fyrir að módernismi
geti blómstrað eftir 1930. Þó að benda megi á einstök módernísk verk á
tímabilinu 1890–1930 innan ýmissa svæða og tungumála, er það víða svo
að meginhræringar módernismans og ýmis lykilverk hans koma fram síðar.
Síðast en ekki síst virðist frá sjónarhóli okkar á nýrri öld hægt að gagnrýna
Modernism. 1890–1930 fyrir að „eigna“ sér þetta tímabil í bókmenntasög-
unni með því að leggja megináherslu á ákveðna strauma bókmenntanna á
kostnað annarra innan tímarammans. Þeir Bradbury og McFarlane eru þó
varla sekir um þessa viðleitni; ekkert bendir til að markmið ritstjóranna
hafi verið að láta skrá bókmenntasögu tímabilsins heldur fyrst og fremst að
kortleggja höfuðdrætti módernismans. Á móti mætti þá segja að með því að
hampa fagurfræðilegum áherslum módernismans í bókinni sé samt í reynd
gert sterkt tilkall til þessa tímabils í hans nafni og við blasir að útgáfufyr-
irtækið gerir það rækilega með áðurnefndri breytingu á undirtitli ritsins.
Þetta tilkall hefur oftar en ekki leitt til þess að víða má lesa, t.d. í samhengi
15 Meðal dæma sem hafa lengi blasað við og grafa undan hugmyndum um eðlistengsl
stórborga og módernisma eru heimaslóðir Williams Faulkners í smáborginni Ox-
ford í Missisippi og þar í grennd.
FRÁSAGNARKREPPUR MÓDERNISMANS