Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Page 16
16
ensk-amerískrar bókmenntasögu, að módernismi hafi orðið ráðandi afl á
þessu tímabili. Þetta er dæmi um þá skekkju sem stýrir gjarnan skráningu
bókmenntasögu liðinna tímabila. Þar ræður ferðinni fjarlestur sem mót-
ast af því að öfl sem eru að ryðja sér til rúms, og þykja hafa veitt nýjum
straumum inn á sviðið, eru sett miðsvæðis og í aðalhlutverk eftir á.16
Þótt áhersla á nýsköpun innan einstakra tímabila varpi mikilvægu ljósi
á bókmenntasöguna, kann annarskonar fjarlestur þó að sýna að slík nálgun
gefi engan veginn sannferðuga mynd af hinu sögulega skeiði, hvorki af
bókamarkaðnum almennt né af bókmenntastofnuninni svokölluðu sem
leitast iðulega við að greina menningarlegt gildi frá hinu fjárhagslega.
Þetta sést glöggt þegar horft er á tímabilið 1890–1930 án módernískra
gleraugna, til dæmis í breskum sagnabókmenntum. Þetta er tímabil H.G.
Wells, Rudyards Kiplings (sem fékk Nóbelsverðlaunin 1907), Arnolds
Bennetts, Johns Galsworthys (fékk Nóbelsverðlaun 1932) og Somersets
Maughams. Vestanhafs verða fyrir höfundar á borð við Edith Wharton,
Theodore Dreiser, Sinclair Lewis (Nóbelsverðlaun 1930), Upton Sinclair
og Pearl S. Buck (Nóbelsverðlaun 1938). Þessir höfundar eru lítt eða ekki
til umfjöllunar í bók Bradburys og McFarlanes.17 Svo kemur ný kynslóð,
í Bretlandi til dæmis þeir Evelyn Waugh, Graham Greene og George
Orwell sem láta til sín taka um og upp úr 1930. Og þannig mætti halda
áfram – einnig með dæmum úr öðrum tungumálum – við að undirbyggja
þá röksemd að megingrein sagnalistar á Vesturlöndum á fyrri hluta 20.
aldar sé af meiði raunsæisbókmennta en ekki módernisma. Raunar vil ég
ganga lengra og segja að þetta eigi við um alla 20. öldina og allt til líðandi
stundar á nýrri öld. Þetta gildir einnig um flestar greinar bókmenntanna
sem kenndar eru við dægurmenningu, og þótt ýmsum bókmenntaverk-
um sé fyrst og fremst ætlað að hafa afþreyingarhlutverk er erfitt að draga
skýr skil á milli slíkra bókmennta og þeirra sem hljóta viðurkenningu
bókmenntastofnunarinnar (hvar eigum við að koma Jack London fyrir,
Guðrúnu frá Lundi, eða John Le Carré?).
16 „Fjarlestur“ er þýðing á „distant reading“; hugtakið er sótt til greinar Francos
Morettis, „Conjectures on World Literature“, New Left Review, jan.–febr. 2002,
bls. 54–68.
17 Realisminn er til umfjöllunar í annarri bók sem út kom 1974 í sömu ritröð: The Age
of Realism í ritstjórn F.W.J. Hemmings. Þar eru þó einungis teknir fyrir raunsæis-
höfundar nítjándu aldar og miðað er við að tímabili realismans ljúki um það bil er
sú öld rennur sitt skeið.
ÁstRÁðuR EystEinsson