Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Síða 17
17
Frá þessu víða sjónarhorni birtist módernisminn sem andófsafl. Hann
mætti jafnvel – einkum ef við tökum mið af módernisma sem er róttækur
í formtjáningu sinni – skoðast sem jaðarhreyfing til langs tíma. Þetta á
þó síst við um ljóðlistina, þar sem módernismi hefur víða orðið miðlægur
(a.m.k. á Vesturlöndum), en segja má að ljóðlist hafi sem bókmenntagrein
færst á sama tíma í einskonar „móderníska“ jaðarstöðu gagnvart öðrum
greinum, einkum þó skáldsögunni.
Í þessu sambandi sýnist óþarfi að sjá meginmun á framúrstefnuhóp-
unum, sem oft voru mjög fámennir þótt þeim tækist að vekja allnokkra
athygli, og þeim módernistum sem gjarnan er hampað fyrir einstaklings-
framtak. Fredric Jameson hefur til dæmis rætt um fjögur söguleg stig
módernismans, einskonar þróunarferli frá symbólisma og öðrum hræring-
um í lok 19. aldar yfir í framúrstefnu snemma á 20. öld og þaðan til hinna
einstöku snillinga („modernism of the isolated genius“), til dæmis Joyce
og Pounds.18 En ferill Pounds er einmitt til marks um hversu hæpin slík
flokkun er; hann tók ekki aðeins þátt í að stofna framúrstefnuhóp held-
ur má í höfundarsögu hans sjá mikilvægi félagslegra tengsla (sem nú eru
gjarnan kölluð net) fyrir módernistana sem syntu gegn straumnum, jafn-
vel þá einrænustu og sérvitrustu. Lykilhlutverk Pounds fólst ekki aðeins í
ljóðlist hans heldur einnig í sjálfboðastarfi hans sem ritstjóra og tengiliðs.
Iðulega voru konur í slíkum hlutverkum; voru tengiliðir, hjálparhellur,
samverkamenn og jafnvel útgefendur módernista sem ekki fengu hljóm-
grunn hjá leiðandi útgefendum þess tíma; konur sem sjálfar voru rithöf-
undar, til dæmis Gertrude Stein, eða tengdust bókmenntalífinu á annan
hátt, eins og bóksalinn Sylvia Beach sem gaf út Ulysses eftir Joyce.19
Þegar leitast er við að sjá módernismann í breiðu samhengi bókmennta-
lífsins og bent á hann sem andófsafl, má semsé ekki gleyma að hann átti
sér frá upphafi öflugt stuðningsfólk, bæði meðal rithöfunda og annarra
sem tengdust bókmenntalífinu og í sívaxandi mæli meðal gagnrýnenda
og fræðimanna. Og þótt módernismi hafi ekki verið ráðandi straumur í
bókmenntaheimi síðustu aldar, þá varð hann það smám saman í fræðasam-
18 Fredric Jameson, Postmodernism, or, the Cultural Logic of Late Capitalism, London
og New York: Verso, 1991, bls. 305. Fjórða stigið er „síðmódernismi“ („late mod-
ernism“); sjá um það síðar í þessari grein.
19 Á liðnum árum hefur birst fjöldi bóka um hlut kvenna í módernismanum; sumar
fyrst og fremst um kvenrithöfunda en aðrar um kvennasögu módernismans í víðari
skilningi, t.d. bók Shari Benstock, Women of the Left Bank. Paris 1900–1940, Austin:
University of Texas Press, 1986.
FRÁSAGNARKREPPUR MÓDERNISMANS