Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Page 21
21
epískt raunsæi í íslenskum bókmenntum á fjórða og fimmta áratugnum.
Það gerði Virginia Woolf sjálf seint á ferli sínum með skáldsögunni The
Years (Árin, 1937), þar sem hún hvarf frá þeirri róttæku nýsköpun sem
einkennir To the Lighthouse (1927) og þó sérstaklega The Waves (Öldurnar,
1931).
Landamæri realisma og módernisma
Þetta leiðir hugann að því að víða eru mörk óljós milli módernisma og real-
isma. Þéttleiki í málbeitingu, táknheimi og formgerð í seinustu skáldsög-
um Henrys James og sumum verka E.M. Forsters og Josephs Conrads er
þess eðlis að þrátt fyrir raunsæisumgjörðina geta þau virst opin til beggja
átta. Sumar sögur Ernests Hemingways standa á sömu landamærum en
á öðrum slóðum. Einn er sá höfundur sem fræðimenn og gagnrýnendur
hafa gert sérlega sterkt tilkall til ýmist í nafni raunsæis eða módernisma,
en það er Thomas Mann. Der Zauberberg (Töfrafjallið, 1924) eftir Mann
er stundum talin ein af meginskáldsögum módernismans. Í grein sem J.P.
Stern birtir í áðurnefndu greinasafni Bradburys og McFarlanes er fer-
ill Manns túlkaður sem þróun í móderníska átt og þess talin sjást merki
þegar í skáldsögunni Buddenbrooks (1901).28 En aðrir hafa álitið Mann vera
endurnýjanda raunsæis í sagnagerð, og hinn kunni marxíski bókmennta-
fræðingur Georg Lukács leit beinlínis á verk og feril Manns sem erkidæmi
um þróun nútímaraunsæis andspænis þeim glapstigum módernismans þar
sem fóru höfundar eins og Franz Kafka.29
Landamæri realisma og módernisma eru mikilvæg fyrir skilning okkar
á sögu nútímabókmennta á Vesturlöndum og þar með á vægi og stöðu
módernismans til skemmri og lengri tíma. Á þessum landamærum skiptir
viðhorf túlkandans miklu máli. Sumir geta lesið meginverk Prousts, Í leit
að glötuðum tíma, sem dæmi um hamskiptahæfni realismans en aðrir sem
langdregna fæðingu eins magnaðasta vitundarheims módernískra bók-
mennta. Ef við lítum sem snöggvast aftur á feril Halldórs Laxness, þá er
freistandi að spyrja hvar við staðsetjum Gerplu. Hún er hluti af nútímavæð-
ingu hans á hinum epíska arfi en jafnframt er hún hlaðin gagnrýninni og
gróteskri sjálfsvitund um þá stöðu sína, og sker sig úr þeirri veruleikalík-
28 J.P. Stern, „Theme of Consciousness: Thomas Mann“, Modernism. 1890–1930,
ritstj. Bradbury og McFarlane, bls. 416–429.
29 Sbr. umfjöllun mína í greininni „Baráttan um raunsæið. Um módernisma, raunsæi
og hefð“, Umbrot. Bókmenntir og nútími, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1999, bls.
30–55.
FRÁSAGNARKREPPUR MÓDERNISMANS