Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Page 22
22
ingu sem liggur raunsæissögum til grundvallar. Nú má spyrja hvort það
sé ekki fullmikil einföldun að horfa á hin ýmsu bókmenntaverk frá þess-
um mörkum. Hvað um vísindaskáldsögur eða hina umfangsmiklu flóru
fantasíu bókmennta sem setja svip á nútímabókmenntir Vesturlanda – á
einnig að leggja slíkan kvarða á þær? Að sjálfsögðu þarf að skoða bók-
menntir og bókmenntasögu frá ýmsum sjónarhornum, og ljóst er að mikill
fjöldi bókmenntaverka er ekki raunsær í þeim skilningi að veruleikamynd
þeirra samræmist því þekkingarlíkani heimsins sem viðtekið er. Flestir vita
til dæmis að dýr ræða ekki sín á milli á tungum manna, en þau gera það
samt furðuoft í sögum. En ef við föllumst á veruleikalíkingu slíkra verka,
þá samþykkjum við heilan sagnaheim og þar ráða iðulega ríkjum hefð-
bundnir hættir og mynstur frásagna.
Ef til vill er rétt að taka fram að þeim sem hrífast af módernisma í bók-
menntum þarf síður en svo að vera í nöp við sagnagleði. Þeir geta notið
þess að berast með söguflaumi um hina ólíkustu heima og geima. Það
kann að hljóma sem þversögn en sú sagnahneigð er einmitt eitt af því sem
getur heillað mann við frásagnarkreppu módernískra bókmennta, þar sem
hið klassíska frásagnarrof vindur upp á sig og verður að „truflun“. Tími
sögunnar breytist í stað – stað íhugunar, myndbyggingar, möguleika ann-
arra og jafnvel annarlegra frásagnarþráða, einnig í heimi og vitund les-
andans sjálfs. Það er einmitt þessi truflun sem ítalski höfundurinn Italo
Calvino kannar og bregður snilldarlega á leik með í skáldsögunni Se una
notte d‘inverno un viaggiatore (Ef ferðalangur á vetrarnóttu) sem birtist 1979.
Það verk er dæmi um sjálfsögu, þá sjálfsrýni sem stundum var talin póst-
módernískt einkenni þegar hún kom fram á seinni hluta tuttugustu aldar
en hefur í reynd alltaf sett svip sinn á módernískar bókmenntir. Annað
enn nýrra og einnig heillandi verk með sterkum módernískum dráttum,
sem lúta að tækni og fagurfræði boðskipta, er skáldsagan C, sem enski höf-
undurinn Tom McCarthy birti 2010. McCarthy hefur lagt sig eftir sögu
módernismans. „Að hunsa framúrstefnuna er álíka og að hunsa Darwin“,
hefur verið haft eftir honum í viðtali.30 Þótt ýmsir hafi fagnað C, eru við-
brögð í ritdómi dagblaðsins The Guardian vísbending um að módernism-
inn hafi ekki orðið eins samgróinn bókmenntakerfinu og sumir vilja vera
láta. Gagnrýnandinn, Christopher Tayler, bendir á að þetta sé óvenjuleg
30 Viðtal James Purdons við McCarthy. „Tom McCarthy: „To ignore the avant garde
is akin to ignoring Darwin“.“ Observer 1. ágúst 2010. Sjá: http://www.guardian.
co.uk/books/2010/aug/01/tom-maccarthy-c-james-purdon [sótt 6. júní 2013].
ÁstRÁðuR EystEinsson