Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Side 25
25
að þessar tvær túlkunarleiðir séu „mjög misöflugar og misáhugaverðar“.32
Það held ég raunar að velti ekki síst á túlkandanum, en sjálfur hefur Culler
skrifað athyglisverða bók um Flaubert sem módernista: Flaubert. The Uses
of Uncertainty (1974). En ef við ætlum í alvöru að stíga það skref að líta á
verk Flauberts sem dæmi um módernisma, hvaða afleiðingar hefur það á
sýn okkar á bókmenntasöguna? Þrengist þá ekki óhjákvæmilega sjónarhorn
okkar á realismann – sérstaklega ef við leggjum megináherslu á raunsæi
sem túlkunarleið? Með bók Cullers í farteskinu er freistandi að endurlesa
til dæmis sagnaverk Charles Dickens sem módernisma; að finna í þeim þá
óræðni sem leysir hann undan lögmálum raunsæisins (enda er Dickens
á köflum ýmist rómantískur, melódramatískur, gotneskur, gróteskur eða
jafnvel eilítið súrrealískur í framsetningu sinni). Þar með virðist fjand-
inn laus og ótal spurningar vakna, en að mínu mati breytir þetta engu um
stöðu Dickens sem eins mikilvægasta realista bókmenntanna. ég held að
þeir Bradbury og McFarlane hafi staðið frammi fyrir slíkum spurningum
þegar þeir leituðust við að finna upphafi módernismans stað í áðurnefndri
bók sinni. Að þeim vanda verður vikið undir lok þessarar greinar.
Hefð í hefðbundnum skilningi?
Ef við ætlum okkur að fá mynd af sögu módernismans, megum við þó
ekki einblína á landamærin milli hans og raunsæishefðarinnar. Við hljót-
um einnig að taka mið af hinum róttæku verkum; hljóðljóðum, andljóð-
um, andsögum og gjörningum; verkum framúrstefnuhöfunda eins og
Majakovskís, Appollinaires og Tristans Tzara – og einnig þeirra sem ekki
teljast til sérstakra framúrstefnuhópa: Gertrude Stein er mér þar ofar-
lega í huga. Einnig mætti hér tilgreina leikrit eftir Strindberg, Alfred
Jarry, Brecht, Pirandello, Beckett, Ionesco og Pinter, eða skáldsögur eftir
Kafka, Hermann Broch, Nathalie Sarraute, Svövu Jakobsdóttur og Thor
Vilhjálmsson. Sókn módernismans til æ meiri róttækni er stundum rædd
með tilvísun til þess hvernig Joyce umturnaði skáldsagnaforminu með
Ulysses og gekk svo enn lengra með Finnegans Wake (1939), og vakti þar
spurningar um mörk þessa bókmenntaforms og raunar um það hversu
langt sé yfirleitt hægt að ganga í tilraunum með tungumálið. Við þær
spurningar hefur verið glímt æ síðan. Þótt Finnegans Wake sé að margra
32 Jonathan Culler, „The Uses of Uncertainty Re-viewed“, í The Horizon of Literature,
ritstj. Paul Hernadi, Lincoln: University of Nebraska Press, 1982, bls. 299–306;
hér bls. 306. Sjá nánar í bók minni The Concept of Modernism, bls. 190–191, í kafla
þar sem jafnframt er rætt ítarlegar um tengsl realisma og módernisma.
FRÁSAGNARKREPPUR MÓDERNISMANS