Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Blaðsíða 27
27
Sögulegur veruleiki og söguþráður
Söguleg staða módernismans byggist því ekki eingöngu á sókn hans eftir
hinu nýja, þó að einkennum róttækrar nútímalistar hafi stundum verið lýst
með vísun til þess að viðtakendum bregði í brún yfir nýsköpuninni; hún sé
„sjokkerandi“.34 Nýbreytni og tilraunum í ritlist og öðrum listum verður
ekki nema að takmörkuðu leyti líkt við nýsköpun í vísindum og tækni (þ.e.
tilraunir, uppgötvanir, uppfinningar, tækniþróun). Það sem ég hef kallað
frásagnarkreppu módernismans á sér fleiri hliðar og þær lúta að tengslum
tungumáls, frásagna og veruleika nútímans – þeirrar nútímavæðingar sem
hefur skilað hluta mannkyns mikilli hagsæld en einnig leitt til valdbeiting-
ar, kúgunar og hörmunga af mannavöldum sem virðast fara í bága við þá
upplýsingu, skynsemishyggju og mannúðarstefnu sem taldar hafa verið til
framfaraskrefa mannkyns. Fredric Jameson hefur sagt módernisma í bók-
menntum vera afleiðingu eða afurð tvöfaldrar kreppu: félagslegrar kreppu
frásagnarbærrar reynslu („social crisis of narratable experiences“) og einnig
táknkreppu frásagnarviðmiða („semiotic crisis of narrative paradigms“).35
Þessar kreppur tvinnast óhjákvæmilega saman og verða til í nútímaheimi
sem gerir mönnum óhægt að koma nýrri sögulegri reynslu fyrir í hefð-
bundnum frásögnum.
Bandaríski sagnfræðingurinn Hayden White telur að þótt módern-
ismi virðist hafa horn í síðu frásagnarorðræðu, hafi hann í reynd ekki
hafnað vægi sögu (sagnfræði) og frásagna, né heldur realismanum, held-
ur hafi módernisminn lagt sig eftir takmörkunum þeirra frásagnarforma
sem festust í sessi á nítjándu öld og afhjúpað tengsl þeirra við ráðandi
orðræðu þess tíma. Þar með hafi módernismi í bókmenntum jafnframt
fundið nýja eða gleymda frásagnarmöguleika, sem varpað gætu ljósi á sér-
staka reynslu nútímafólks af tímanum, sögulegri vitund og félagslegum
veruleika.36 Raunar gengur White svo langt að segja að í stað þess að líta
á módernismann sem afneitun realismans og sögunnar, megi skoða hann
sem tjáningarleið að nýjum sögulegum veruleika, sem hefði mátt ætla að
væri handan hugsunar og máls („supposedly unimaginable, unthinkable,
and unspeakable“). White nefnir sem dæmi: Hitlerisma, „hina endanlegu
34 Sbr. titil kunnrar sjónvarpsþáttaraðar og samnefndrar bókar um nútímalist eftir
Robert Hughes: The Shock of the New (1980).
35 Fredric Jameson, Sartre. The Origins of a Style, New York: Columbia University
Press, 1984, bls. 211.
36 Hayden White, Figural Realism. Studies in the Mimesis Effect, Baltimore og London:
The Johns Hopkins University Press, 1999, bls. 26.
FRÁSAGNARKREPPUR MÓDERNISMANS