Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Síða 35
35
and the rest“). Íslendingar kannast við sig hvorumegin hryggjar sem er.52
En það kann að orka tvímælis að vinna á sömu forsendum innan módern-
ismafræða. Ekki er hægt að ætlast til að módernismi á hinum ýmsu stöðum
fylgi fyrirframgefnu mynstri þeirra verka sem lengst hafa talist til hefð-
arveldis módernismans, en það er ekki heldur hægt að horfa framhjá því
að hugtakið módernismi varð til í umfjöllun um ákveðnar bókmennta- og
listhræringar í vissum löndum. Eitt er að vera gagnrýninn á fagurfræði
slíkra hræringa en annað að gera hana að blóraböggli fyrir vestræna blindu
sökum þess að hún teljist njóta „forréttinda“. Morag Shiach hefur sagt að
í fræðilegri umfjöllun um módernisma hafi verið tilhneiging til að einfalda
þær stefnur sem voru í andstöðu við módernismann hverju sinni og kort-
leggja ákveðna listræna nýbreytni þannig að hún virtist tjá samtímann með
sannferðugri hætti en þær.53
Ef þetta er raunin – sem vel kann að vera í ýmsum tilvikum – sýnist mér
að sterkasta svarið við slíkri einföldun hljóti að felast í gagnrýnu endurmati
á umræddum stefnum, sem virðist mega ætla að hafi ekki fengið nægilegt
fulltingi í fræðaheiminum. Það sem hefur hinsvegar átt sér stað, og nú hlýt
ég að einfalda svolítið, er að þetta endurmat hefur í nokkrum mæli farið
fram, en það hefur gerst í nafni módernismans og um leið hefur að einhverju
leyti tekist að bola formlegum og fagurfræðilegum eigindum módernism-
ans út úr umræðunni. Þá færist módernismi nær því að verða hugtak um
tímabil, hversu langt sem það telst, án þess að greint sé að milli einstakra
strauma á því tímabili. Í inngangi fyrra Oxford-safnritsins segir að áherslur
í módernismarannsóknum hafi færst frá fagurfræðilegum þáttum yfir í
breiða umfjöllun er lúti að menningarlegu samhengi módernismans og
jafnframt er vísað til fræðimannsins Geoffs Gilberts sem leggur áherslu á
að módernismi megi ekki takmarkast við verk sem einkennist af formlegri
nýbreytni.54 Í inngangi síðara Oxford-safnritsins ræðir Mark Wollaeger
52 Sjá grein mína „Jaðarheimsbókmenntir“, Jón á Bægisá. Tímarit þýðenda, 8. hefti,
2004, bls. 13–27.
53 Hún segir um slíka umfjöllun að hún hafi „tended to iron out the complexity
of competing styles at any given historical moment in favour of a map which
identifies particular form of artistic experimentation as more truly expressive of
their moment“. Morag Shiach: Modernism, Labour and Selfhood in British Literature
and Culture, 1890-1930, Cambridge: Cambridge University Press, 2004, bls. 135.
Tilvitnun sótt í Brooker, Gąsiorek, Longworth og Thacker: „Introduction“, The
Oxford Handbook of Modernisms, bls. 5.
54 Brooker, Gąsiorek, Longworth og Thacker, „Introduction“, The Oxford Handbook
of Modernisms, bls. 6 og 9.
FRÁSAGNARKREPPUR MÓDERNISMANS