Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Síða 36
36
muninn á ensku orðunum „modern“ og „modernist“ og bendir á að í með-
förum ýmissa fræðimanna sé munurinn að þynnast út.55
HCE
ég efast ekki um að ritstjórar umræddra safnrita hafi mikið til síns máls;
þeir byggja á fjölmörgum greinum í bókunum og nóg er af öðrum dæmum
í fræðilegri umræðu síðustu ára. Margir eru þeir kandídatar, stórir og smáir,
sem menn vilja sæma módernismatitlinum, væntanlega með þeim „forrétt-
indum“ eða virðisauka sem talinn er fylgja honum, þrátt fyrir breytt sjón-
arhorn. Henrik Ibsen er einn af hinum stóru og í nýlegri bók um verk hans
setur norski bókmenntafræðingurinn Toril Moi hann í flokk módernista.
Hún andæfir þeirri skoðun að módernismi sé andstæða realisma og virðist
telja eðlilegt að þurrka út þann mun. Hún gagnrýnir hve sjaldan Ibsen sé
nefndur í ritum um módernisma en tilgreinir sem undantekningu áður-
nefnda bók, Modernism. 1890-1930, í ritstjórn Bradburys og McFarlanes,
enda hafi McFarlane verið „fremsti Ibsenfræðingur Bretlandseyja“ á sinni
tíð.56
Einmitt þess vegna hefði hún átt að gæta betur að stöðu Ibsens í því
safnriti. Hann birtist þar sem höfundur er skipti miklu máli á upphafsárum
módernismans. Í greininni „Modernist Drama: Origins and Patterns“
benda McFarlane og John Fletcher á að Ibsen eigi stóran hlut í því baksviði
nútímaleikhússins sem módernistar næstu kynslóðar fá í arf, en segja að það
sé hinsvegar Strindberg sem vísi til þeirrar framtíðar módernískrar leikrit-
unar sem þá var enn óráðin.57 Sömu skrefin í sögulegri röksemdafærslu
má sjá í grein þeirra McFarlanes og Bradburys, „The Name and Nature of
Modernism“. Þar er bent á mikilvægi þeirra hræringa sem Georg Brandes
kenndi við „gegnumbrot“ nútímans og orðið hefur að föstu hugtaki („det
moderne gennembrud“ á dönsku). „Modern“ varð að lykilorði, en er um
að ræða módernisma eða fremur hluta af umbrotum sem módernism-
inn spratt upp úr? „Gegnumbrotið“ svonefnda var deigla þar sem ýmsu
ægði saman: síðrómantík, natúralisma og öðrum raunsæisbókmenntum,
55 Mark Wollaeger, „Introduction“, The Oxford Handbook of Global Modernisms, bls.
11.
56 Toril Moi, Ibsens modernisme, norsk þýðing Anete Øye (yfirfarin af Toril Moi),
Ósló: Pax forlag, 2006, bls. 50n. (Verkið er upphaflega samið á ensku og birt undir
heitinu Henrik Ibsen and the Birth of Modernism, 2006.)
57 John Fletcher og James McFarlane: „Modernist Drama: Origins and Patterns“,
Modernism. 1890–1930, bls. 499–513, hér bls. 502–503.
ÁstRÁðuR EystEinsson