Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Page 51
51
óreiðukenndan myndheim þess verks, en þær eru hér felldar inn í skýrt
afmarkaðan og augljóslega kóðaðan merkingarheim sem stefnir að þjóð-
félagslegri greiningu og gagnrýni. Eftir að Richter flutti til Bandaríkjanna
árið 1941 – eftir að hafa unnið að röð auglýsinga- og heimildavikmynda í
Hollandi og Sviss á fjórða áratugnum – gegndi hann mikilvægu hlutverki
við að kynna eldri tilraunakvikmyndahefðir frá Evrópu fyrir nýjum kyn-
slóðum kvikmyndagerðarmanna, auk þess sem hann tók virkan þátt í að
rita og móta sögu dadaismans á eftirstríðsárunum.32
Yfirlitið um feril Richters varpar ekki aðeins ljósi á bakgrunn og fagur-
fræðilegar uppsprettur Reimleika að morgni. Það sýnir jafnframt að erf-
itt getur reynst að staðsetja verk framúrstefnumanna í kvikmynda-, bók-
mennta- eða listsögulegu samhengi með einhlítum hætti, jafnvel þegar
fyrst og fremst er horft til þeirra hreyfinga sem þeir störfuðu með. Þetta
er einkar sýnilegt af ferli Richters, sem Scheugl og Schmidt fullyrða
að hafi „gengið til liðs við allar listastefnur“ sem komu fram „í kjölfar
dada ismans“.33 Í tilviki Reimleika að morgni vekur einkum athygli hversu
ríkjandi umræðan um fagurfræðileg einkenni og sögulega stöðu verksins
hefur verið. Lykilspurningin sem fræðimenn hafa glímt við er sú hvernig
beri að flokka leikræna og fagurfræðilega úrvinnslu verksins á reimleik-
um: hvort hér sé á ferð gáskafullur dadaískur leikur, afurð súrrealískrar
fagurfræði og glímu hennar við hið yfirskilvitlega eða dæmi um könnun
konstrúktívismans á möguleikum nýrra tæknimiðla. Vissulega er gengist
við því að Richter bregði á leik með hugmyndir um dulræn fyrirbrigði,
en hlutverk þeirra er smættað niður í útgangspunkt fyrir tilraunakenndan
leik með kvikmyndamiðilinn, þar sem fengist er við hreyfingu, tæknilega
eiginleika kvikmyndarinnar og niðurrif ríkjandi hefða. Lykilspurningin
verður þá sú hvort leikur Richters með dulræn fyrirbrigði sé af dadaískri,
32 Í þessu samhengi er vert að nefna kvikmyndina Dreams that Money Can Buy, sem
Richter vann að á vegum Art of this Century Corp á árunum 1944 til 1947, í samvinnu
við Max Ernst, Fernand Léger, Man Ray, Marcel Duchamp og Alexander Calder.
Sjá Scheugl og Schmidt, Eine Subgeschichte des Films, 2. bindi, bls. 741. Ítarlega
umfjöllun um þetta síðara skeið á höfundarferli Richters má finna í safni greina sem
tekið er saman í Hans Richter. Encounters, ritstj. Timothy O. Benson, München,
London, New York: DelMonico, Prestel, 2013. Eintak af þessari sýningarskrá barst
mér því miður of seint í hendur til að unnt væri að vinna úr efni hennar við ritun
greinarinnar, en ég vil hér einkum benda á bitastæða umfjöllun í tveimur greinum
um kvikmyndir Richters frá fjórða áratugnum: Edward-Dimendberg, „Avant-garde
Filmmaker for Hire“, bls. 87–97; Yvonne Zimmermann, „A Missing Chapter. The
Swiss Films and Richter’s Documentary Practice“, bls. 109–119.
33 Sama heimild, bls. 744.
SVIPMYNDIR Að HANDAN