Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Page 53
53
ótta, trúarlega lotningu eða óræða og magnaða reynslu“, enda geta í raun
allar menningarlegar afurðir ratað inn í straumrás hennar.39
Greining á þeirri „félagslegu orku“ sem brýst fram í reimleikunum í
verki Richters snýr síður að stöðu verksins innan kvikmynda- og listasögu
nútímans en að menningarsögulegu andartaki og þekkingarsköpun verks-
ins. Ekki er litið á hið fagurfræðilega sem sjálfstæðan vettvang, er lýtur
eigin forsendum og lögmálum, heldur sem tiltekið orðræðusvið sem er
órjúfanlega tengt öðrum orðræðusviðum innan menningarinnar. Þannig
er sjónum beint að kvikmynd Richters sem vettvangi þar sem tekist er á við
hugmyndaheim og menningarlegan veruleika samtímans. Í reimleikum
verksins má greina spor horfins þekkingarheims, sem veitir okkur innsýn í
fortíðina og gerir okkur kleift að „eiga samræðu við hina látnu“, svo vitnað
sé til lýsingar Greenblatts á þrá nýsöguhyggjunnar.40
Nútímadulspeki og söguleg orðræðugreining
Í kvikmynd Richters verða áhorfendur vitni að mögnuðum reimleikum.
Upphafsatriðið undirstrikar sérstöðu kvikmyndarinnar sem listmiðils sem
er bundinn tímanum og sviptir áhorfendum inn í vídd þar sem önnur
tímalögmál ríkja: þeir sjá klukku sem stendur á tíu þegar vísarnir taka
að hreyfast og tíminn hleypur á fimm mínútum; þegar klukkan slær ell-
efu hefst undarleg atburðarás (myndir 1–3).41 Atburðirnir raðast þó ekki
saman í samhangandi atburðarás, heldur fléttast ólíkir frásagnarþræðir
saman í sérstæðu og „skáldlegu tungumáli“, þar sem fléttan samanstendur
ekki af „einni sögu“ heldur „fjölmörgum frásögnum sem byggja upp marg-
laga heild með hugtengslum“.42 Frásagnirnar skarast og kallast á með þeim
39 Sama heimild, bls. 19.
40 Sama heimild, bls. 1. Lýsing Greenblatts á þránni eftir að eiga samræðu við hina
látnu virðist hér fyrst og fremst gegna mælskufræðilegum tilgangi. Engu að síður
dregur lýsing hans á þessari samræðu, sem og lýsing hans á „straumrás“ hinnar
félagslegu orku sem einskonar óræðu orkuflæði í rými þekkingarinnar, fram sér-
kennilegan skyldleika nýsöguhyggju við þær dulspekilegu hugmyndir sem eru
viðfangsefni þessarar greinar. Nánari könnun á þessum tengslum virðist aðkall-
andi, en hún liggur utan ramma þessarar greinar. Rétt er að vona að ekki hafi verið
stigið skref inn í þekkingarheim dulrænna fræða með því að sækja hér í smiðju ný-
söguhyggjunnar. Sá þekkingarheimur átti sannarlega að verða viðfangsefni þessarar
greinar en ekki fræðilegur útgangspunktur.
41 Um sérstætt og margbrotið samband kvikmyndamiðilsins, tíma og nútímavæðingar,
sjá Mary Ann Doane, The Emergence of Cinematic Time. Modernity, Contingency, the
Archive, Cambridge, London: Harvard University Press, 2002.
42 Wolf, „Von der universellen zur poetischen Sprache“, bls. 22.
SVIPMYNDIR Að HANDAN