Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Page 57
57
gengur nú hraðar en áður. Fjórir menn skríða lóðrétt upp myndflötinn, að
því er virðist í tilraun til að nálgast hattana. Aftur birtist klukkan, sem nú
stendur á 11:50 og er tekin að vagga, í framhaldinu tvöfaldast mynd henn-
ar. Byssumaðurinn birtist á ný og beinir nú vopni sínu að sokkaklæddum
stúlkufótum sem skyndilega verða berleggja. Sjá má átta lófa sem teygja
sig til himins en mynd þeirra umbreytist skyndilega í negatífu. Greina má
útlínur annarlegrar og yfirlýstrar veru sem veifar í átt til áhorfenda – hönd
hennar leikur laus framan á úlnliðnum og skilur sig að lokum frá honum. Í
framhaldinu má greina útlínur mannveru, sem skyndilega limast í sundur.
Brot kaffistellsins, sem brotnað hafði í upphafi, raðast óvænt saman á ný á
kaffibakkanum, sem hefur sig til flugs. Þá má sjá borð og fjóra stóla, maður
gengur inn í myndrammann og heldur á kaffibakkanum, bollarnir hverfa
af bakkanum en birtast síðan aftur hver við sína hlið borðsins. Fjórir ein-
staklingar stíga inn í myndrammann og fá sér sæti. Flugi hattanna lýkur
þegar þeir setjast á höfuð fjórmenninganna, bollarnir dragast af sjálfsdáð-
um að kaffikönnunni og fyllast. Enn birtist klukkan, tíminn líður hægar
en áður og hleypur nú á einni mínútu, frá 11:50 til 12:00. Verkinu, og þar
með reimleikunum, lýkur þegar klukkan slær á hádegi.
Ágripið sem hér hefur verið tekið saman er ekki tæmandi, en það ætti
að gagnast til að varpa ljósi á þá kynngimögnuðu atburði sem blasa við
áhorfendum: hér er augljóslega ekki allt með felldu. Ágripinu er ekki ætlað
að draga fram skýra frásagnarframvindu í verkinu eða beina sjónum að
tæknilegum atriðum í vinnu Richters með kvikmyndamiðilinn. Markmiðið
er öllu heldur að lýsa framvindu verksins í grófum dráttum, varpa ljósi á
byggingu þess og bregða upp svipmyndum af því rými sem þar er skap-
að með annarlegum svipum og birtingarmyndum hreyfilögmála sem eru
efnisheiminum framandi.
Í umfjöllun um kvikmynd Richters hefur ríkt sérkennileg blinda á
reimleikana sem hér er lýst og augljós tengsl þeirra við þekkingarsvið dul-
speki. Í síðari skrifum sínum kýs Richter að horfa framhjá draugagang-
inum og segir verkið hafa „sýnt uppreisn hlutanna, hattanna, bollanna,
bindanna, brunaslangnanna o.s.frv. gegn manninum“.44 Þannig lýsir hann
því yfir að „hlutirnir tákni líka fólk“45 og bendir á að verkið sýni hvernig
þeir brjótast undan hlutverki þrælsins í uppreisn gegn kúgurum sínum,
44 Richter, Dada – Kunst und Antikunst, bls. 203.
45 Hans Richter, „Dada und Film“, Dada. Monographie einer Bewegung, ritstj. Willy
Verkauf, Marcel Janco og Hans Bolliger. Teufen: Arthur Niggli, 1965, bls. 57–66,
hér bls. 65.
SVIPMYNDIR Að HANDAN