Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Side 59
59
„vandræðalegt trúarlegt yfirbragð“ á verkum listamanns eins og Vasilijs
Kandinskij.48
Ein meginástæða þess að dulspekihefðinni hefur verið veitt „furðu-
lítil athygli af hálfu fræðimanna“ er vafalaust sú að „sjálf hugmyndin um
dulhyggju og hið dulræna virðist ekki samrýmast hugmyndum okkar um
menningu og hugarfar nútímans“.49 Þáttur dulspekinnar í hugmyndinni
um nútímann er á einhvern hátt vandræðalegur, hún er barn síns tíma og
fellur illa að hugmyndum okkar um sögulega þróun, framrás vísindalegrar
þekkingar og tæknilegar framfarir. Síst af öllu virðist dulspekin eiga heima
í samhengi verka sem við kjósum að líta á sem menningarlega eða fagur-
fræðilega framsækin, á þann hátt að þau hafi lagt grunn að listsköpun síð-
ari tíma. Með hliðsjón af skrifum Gabriele Jutz má jafnframt færa rök fyrir
því að tengslin við dulspeki verði einkar vandræðaleg í samhengi kvik-
myndasögunnar – ekki síst í umræðu um hefð tilraunakvikmynda, þar sem
sú „goðsögn hins hreina forms“ sem verður ríkjandi á eftirstríðsárunum
hefur reynst jafnvel enn lífseigari en á sviðum bókmennta- og listasögu.50
Í þessu samhengi ræðir Jutz um ríkjandi „mælskufræði hreinleikans“ innan
kvikmyndasögunnar,51 sem vísar til þeirrar hneigðar að rekja feril kvik-
myndarinnar sem einhliða þróun í átt til könnunar á eigin möguleikum,
tækni og efnivið. Slík söguskoðun hvílir á þeirri meginforsendu borg-
aralegrar fagurfræði að listin myndi sjálfstætt svið er lúti eigin forsendum
og innri lögmálum, sem stýri endurnýjun, breytingum og nýsköpun.52
Frá slíku sjónarhorni tilheyrir dulspekin ytra menningarlegu umhverfi
fagurfræðinnar, hægt er að sækja til hennar hugmyndir og annan efnivið
en þessir þættir eru síðan endurframleiddir á innbyggðum og sértækum
48 Partha Mitter, „Decentering Modernism. Art History and Avant-garde Art from
the Periphery“, The Art Bulletin 4/2008, bls. 531–548, hér bls. 538. Mitter dregur
jafnframt fram hvernig þessi jöðrun dulspekinnar í listasögu nútímans tengist
jöðrun austrænna áhrifa og innlimun þeirra í ríkjandi viðmið og borgaralega hug-
myndafræði vestrænnar fagurfræðihefðar.
49 Alex Owen, The Place of Enchantment. British Occultism and the Culture of the Modern,
Chicago, London: University of Chicago Press, 2004, bls. 6.
50 Gabriele Jutz, Cinéma brut. Eine alternative Genealogie der Filmavantgarde, Vín,
New York: Springer, 2010, bls. 35.
51 Jutz, Cinéma brut, bls. 35.
52 Um hugkví fagurfræðilegs sjálfstæðis og mótun hennar innan borgaralegrar menn-
ingar, sjá lykilrit Peters Bürger, Theorie der Avantgarde, Frankfurt am Main: Suhr-
kamp, 1974. Kafli úr ritinu hefur birst í íslenskri þýðingu undir heitinu „Sjálfstæði
listarinnar og vandi þess innan borgaralegs samfélags“, þýð. Benedikt Hjartarson,
Ritið 1/2006, bls. 227–250.
SVIPMYNDIR Að HANDAN