Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Qupperneq 60
60
forsendum hins sjálfstæða fagurfræðilega vettvangs. Hefð dulspekinnar
er þannig hluti af því hismi sem talið er nauðsynlegt að greina frá kjarn-
anum þegar ráðist er í túlkun listaverka og greiningu á fagurfræðilegri
gerð þeirra.
Söguleg orðræðugreining hafnar í meginatriðum slíkri aðgreiningu
í kjarna og hismi og beinir sjónum að sambandi ólíkra orðræðna og
þekkingar sviða innan menningarinnar, sem tengjast og skarast með marg-
víslegum hætti. Athyglinni er á vissan hátt fremur beint að hisminu en
kjarnanum og leitast er við að draga fram mikilvægi þeirra atriða í hinu
sögulega umhverfi sem talin hafa verið léttvæg fyrir skilning á listsköpun
tímabilsins. Í samhengi nútímadulspeki má benda á það veigamikla hlut-
verk sem rit hennar gegndu í evrópskri menningu á fyrri hluta tuttugustu
aldar, sem ekki verður einskorðað við svið trúarlegrar þekkingar eða til-
tekna trúarhópa. Ein leiðin til að loka umræðunni um hlutverk dulspekinn-
ar felst í að líta á hana sem þekkingu er tilheyri horfnum hugmyndaheimi
og skipti aðeins máli fyrir tilraunir til að lýsa sögulegu baksviði verka frá
fyrri hluta tuttugustu aldar. önnur leið, sem oft fer saman við þá fyrr-
nefndu, er sú að afmarka þátt dulspekinnar við þröngan hóp listamanna
sem sökktu sér niður í kenningar og verk dulspekinga um og eftir aldamót-
in 1900. Skýrustu dæmin um þetta má finna í verkum og skrifum Vasilijs
Kandinskij og Piets Mondrian, sem eru hlaðin skírskotunum í dulspek-
irit og bera vott um markvissa vinnu listamannanna með hugmyndaheim-
inn sem þar birtist. Einnig mætti hér benda á verk listamanna og rithöf-
unda á borð við František Kupka, Marcel Duchamp, Velimir Khlebnikov,
Max Ernst, Johannes Itten, Hugo Ball, Mikhail Matjúshin eða Kazimir
Malevitsj, þar sem tengsl við þekkingarhefð dulspekinnar blasa við með
þeim hætti að erfitt er að horfa framhjá mikilvægi þeirra.53 Sé horft til
53 Um verk þeirra listamanna sem hér eru nefndir og tengsl þeirra við hefð nú-
tímadulspeki má lesa í eftirtöldum greinum og bókum: Marty Bax, „Theosophie
und Kunst in den Niederlanden 1880–1915“, þýð. Marianne Kröger, Okkultismus
und Avantgarde. Von Munch bis Mondrian 1900–1915, ritstj. Veit Loers, Ostfildern:
Tertium, 1995, bls. 282–294; Charlotte Douglas, „Beyond Reason. Malevich,
Matiushin, and Their Circles“, The Spiritual in Art. Abstract Painting 1890–1985,
ritstj. Maurice Tuchman, New York: Abbe ville, 1986, bls. 185–199; Alla Powelich-
ina, „Michail Matjuschin. Die Welt als organisches Ganzes“, Matjuschin und die
Leningrader Avantgarde, ritstj. Heinrich Klotz, Stuttgart, München: Oktogon,
1991, bls. 25–33; Ansgar Hillach, „„Das Wort als ein Gottwesen von unen t-
rinnbarer Wirkung“. Hugo Balls Norm setzung gegen die Zeitkrankheit oder die
Wiedergewinnung des Symbols durch den Logos“, Dionysius DADA Areopagita.
Hugo Ball und die Kritik der Moderne, ritstj. Bernd Wacker, Paderborn: Ferdinand
BEnEdikt HjaRtaRson