Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Side 63
63
„ókennd nútímans“ er feli í sér „endurkomu þess sem var gleymt og menn
töldu sig hafa sigrast á“.60 Þetta víða sjónarhorn gerir kleift að nálgast
dulspekina á breiðari grunni, jafnt frá sjónarhorni „heimspeki, sagnfræði,
þjóðfræði, menningarfræði, bókmenntafræði og vísindasögu“,61 og lýsa
birtingarmyndum hennar utan þeirra sviða sem alla jafna hafa verið tengd
dulrænum hefðum. Dulspekin er ekki skilgreind sem „einstætt trúarlegt
fyrirbrigði“, heldur sem tiltekið afbrigði hugsunar er getur brotist fram á
ólíkum sviðum menningarinnar og hefur að geyma sérstæða „félagsfræði,
pólitík, tækni, menningu og skáldskaparfræði þekkingar“.62
Söguleg orðræðugreining gerir kleift að beina sjónum að díalektísku
sambandi dulspeki við ríkjandi þekkingu og ólík hugmyndakerfi innan
menningarinnar á hverjum tíma.63 Í þessu felst að áhrif dulspekinnar á
fagurfræðilega orðræðu nútímans eru ekki bundin við verk þröngs hóps
listamanna, heldur er hún órjúfanlegur þáttur þessarar orðræðu, knýr hana
áfram og setur svip sinn á hana með margvíslegum hætti. Frá þessum sjón-
arhóli er athyglisvert að kanna birtingarmyndir dulspekilegrar þekkingar í
verkum listamanna eins og Richters, sem ekki vinnur markvisst með hefð
hennar. Dulspekileg þekking brýst fram með margvíslegum hætti í verk-
um Richters, sem eru lýsandi dæmi um hvernig slík þekkingariðja verður
að drifkrafti fagurfræðilegrar nýsköpunar, menningarlegrar greiningar og
hugmyndafræðilegrar gagnrýni.
Galdur kvikmyndarinnar
Í bókinni Filmgegner von heute – Filmfreunde von morgen (Fjandvinir kvik-
myndarinnar í dag – Góðvinir kvikmyndarinnar á morgun) frá árinu 1929
ræðir Richter um hugtengsl sem einn af „grunnþáttum myndmálsins“ og
helstu „aðferð kvikmyndaskáldskapar“.64 Hann lýsir því jafnframt yfir að
„aðferð hugtengslanna geti orðið að hreinum töfrum sem breyta hlut-
unum í þeirra innsta kjarna, ljá þeim nýtt gildi og inntak sem þeir hafa
60 Sama heimild, bls. 143 og 148. Sjá Sigmund Freud, „Hið óhugnanlega“, þýð.
Sigurjón Björnsson, Listir og listamenn, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag,
2004, bls. 191–233.
61 Kilcher, „Seven Epistemological Theses on Esotericism“, bls. 144.
62 Sama heimild, bls. 145.
63 Sjá sömu heimild, bls. 148.
64 Hans Richter, Filmgegner von heute – Filmfreunde von morgen, Berlín: Hermann
Reckendorf, 1929, bls. 89.
SVIPMYNDIR Að HANDAN