Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Page 64
64
aldrei búið yfir“.65 Þannig liggur sérstaða kvikmyndarinnar í „töfrandi,
skáldlegum og óröklegum eiginleikum“66 sem gera henni kleift að „færa
mönnunum nýtt lífsinntak, virkja þá, kenna þeim að sjá, fága skilningarvit
þeirra, hressa upp á þá, veita þeim styrk með afþreyingu, skerpa mannlega
skynsemi þeirra og þekkingu, víkka út sjóndeildarhring þeirra og gera þá
að heimsborgurum“.67 Skyldleikinn við dulspekilega orðræðu blasir ekki
aðeins við í myndmáli Richters, bæði í skrifum hans frá þriðja áratugnum
og í síðari tíma greinum, þar sem kvikmyndinni er lýst sem ferli er leiðir til
þekkingarlegrar útþenslu, andlegrar vakningar og endurfæðingar. Lýsingar
Richters á „galdri“ og „töfrum“ kvikmyndamiðilsins eru annað og meira
en skreytandi myndhverfing eða vísun til þeirra tengsla við töfrasýningar
sem einkenndu verk Georges Méliès og annarra frumkvöðla kvikmyndar-
innar.68 Hugmyndir um galdratrú voru útbreiddar og tóku á sig nýjar
myndir í evrópskri menningu á fyrstu áratugum tuttugustu aldar, einkum
í orðræðu dulspekinnar þar sem þær áttu uppsprettur sínar. Galdraiðkun
var ætlað leiðandi hlutverk við að endurvekja þann viljastyrk og lífsþrótt
mannsins sem nútímavæðingin var talin hneppa í fjötra og hún tengdist í
auknum mæli hugmyndum um sjálfsrækt og sjálfsköpun hugverunnar.69
Galdratrú nútímans var þannig ríkur þáttur í menningargagnrýni sem
stefnt var gegn því sem litið var á sem mannfjandsamleg, siðspillandi og
firrandi áhrif nútímavæðingar. Í skrifum Richters má sjá dæmi um hvernig
slík galdratrú tengdist útópískum hugmyndum um möguleika nýrrar tækni
til að knýja á um mótun nýrrar vitundar er gæti lagt grunn að nýrri og
þróttmikilli menningu.
Tengslin við dulspekilega orðræðu koma skýrt fram í þeirri sýn á sál-
rænan þroska og andlega endurlausn sem setur mark sitt á skrif Richters.
65 Sama heimild, bls. 89.
66 Hans Richter, „The Film as an Original Art Form“, College Art Journal 2/1951,
bls. 157–161, hér bls. 159.
67 Richter, Filmgegner von heute, bls. 97.
68 Sjá m.a. lykilgrein Toms Gunning um hefð „aðdráttarkvikmyndarinnar“: „The
Cinema of Attraction. Early Film, Its Spectator, and the Avant-Garde“, Film and
Theory. An Anthology, ritstj. Robert Stam og Toby Miller, Oxford: Blackwell, 2000,
bls. 229–235.
69 Um galdratrú nútímans og tengsl hennar við fagurfræði framúrstefnunnar hef ég
fjallað í greininni „Af goðkynngi orðsins. Um yfirlýsingar evrópsku framúrstefn-
unnar og galdratrú í rússneskum fútúrisma og symbólisma“, Ritið 2/2012, bls.
101–133. Um viljahyggju, nútíma og menningargagnrýni í þýsku samhengi, sjá
einnig Michael Cowan, Cult of the Will. Nervousness and German Modernity, Penn-
sylvania: Pennsyl vania State University Press, 2008.
BEnEdikt HjaRtaRson