Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Qupperneq 72
72
saman og berast inn á kaffiborðið þar sem fjórmenningarnir fá sér sæti.
Sviðsetningin kallar fram mynd af miðilsfundi: fjórmenningarnir sitja
kyrrir með hendurnar á borðröndinni og bíða þess að óvæntir hlutir gerist;
kaffið hellist af sjálfsdáðum í bolla þeirra og ferðalagi hattanna lýkur þegar
þeir setjast á höfuð þeirra (mynd 10).96 Í atriðinu má greina ótvíræða vísun
í miðilsfundi og starfsemi spíritistahreyfingarinnar, sem hafði verið fyrir-
ferðarmikil en um leið umdeild í Þýskalandi á upphafsárum tuttugustu
aldar.97 Vísunin færir okkur forvitnilegan lykil að greiningu á verkinu og
félagslegri orku þess.
Hér er gagnlegt að leita á ný út fyrir kvikmynd Richters og beina sjón-
um að sambandi spíritisma og rafrænna miðla í víðara samhengi. Jeffrey
Sconce hefur bent á að spíritisminn spratt upp sem sérstæð blanda vísinda-
hyggju og dulrænna hefða, þar sem hugmyndir um tæknilega og andlega
þróun fléttuðust saman með þeim hætti að oft reynist örðugt að greina á
milli hlutverks rafrænna og holdlegra miðla. Þetta kemur m.a. skýrt fram
í hugmyndum spíritismans um að hægt væri að fanga ósýnilegar bylgj-
ur með nýrri boðskiptatækni, en Sconce kemst að þeirri niðurstöðu að
spírit isminn hafi orðið fyrstur til að leggja fram hugmyndir um einskonar
„rafrænan handanheim“.98 Samskiptin í þessu „ósýnilega útópíska rými
sem spratt af og hægt var að ná til með undrum rafrænna miðla“99 voru
talin fljótandi, óefniskennd og bundin æðri rökvísi. Hlutverk miðilsins
var að fanga fyrirbæri sem voru á sveimi í þráðlausri vídd ljósvakans eða
„etersins“ og honum var ætlað að þjóna sem einskonar „andlegur ritsími“
eða „viðtæki“. Fjarskiptarásirnar á milli ólíkra vídda lágu jafnt um miðla af
96 Hattarnir sem fljúga um háloftin í kvikmynd Richters eru jafnframt hefðbundin
táknmynd fyrir atlögu framúrstefnunnar að borgaralegri menningu. Þekkt dæmi
um notkun minnisins má finna í ljóði Jakobs von Hoddis, „Weltende“ („Heims-
endir“), frá árinu 1911. Ljóðið öðlaðist síðar aukið vægi sem einn af lykiltextum
þýska expressjónismans, þegar það birtist sem opnunarljóð hins þekkta ljóðasafns
Menschheitsdämmerung, í ritstjórn Kurts Pinthus, árið 1919. Upphafslína ljóðsins
hljómar þannig: „Dem Bürger fliegt vom spitzen Kopf der Hut“ – í íslenskri þýð-
ingu Franz Gíslasonar: „Af borgarans kolli gustur hrífur hatt“: Jakob van Hoddis,
„Heimsendir“, þýð. Franz Gíslason, Ritið, 1/2006, bls. 15.
97 Um sögu spíritistahreyfingarinnar í Þýskalandi og þau hugmyndafræðilegu átök
sem spruttu af starfsemi hennar og annarra dulspekihreyfinga, sjá Corinna Treitel,
A Science for the Soul. Occultism and the Genesis of the German Modern, Baltimore,
London: Johns Hopkins University Press, 2004.
98 Jeffrey Sconce, Haunted Media. Electronic Presence from Telegraphy to Television,
Durham, London: Duke University Press, 2000, bls. 57.
99 Sama heimild, bls. 57.
BEnEdikt HjaRtaRson