Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Qupperneq 73
73
holdi og blóði og rafræna miðla, sem gegndu lykilhlutverki fyrir hljóð- og
myndbirtingar handanheimsins. Með tilkomu þráðlausrar boðskiptatækni
um aldamótin 1900 töldu spíritistar að mögulegt gæti orðið að „ráða gátu
ljósvakans, þessa dularfulla efnis sem menn töldu eitt sinn vera þann ósýni-
lega miðil sem allt ljós, rafmagn og segulbylgjur færu um“.100 Í samhengi
spíritismans var þannig unnið á margvíslegan hátt með tækninýjungar og
vísindalega orðræðu sem þeim tengdist. Um leið sóttu spíritistar markvisst
til eldri þekkingarhefða, þ.á m. til vísindalegrar orðræðu og lífhyggjuhug-
mynda 18. aldar, þar sem byggt var á náttúruspeki Paracelsusar og litið
svo á að „heimurinn væri hlaðinn af leyndardómsfullum og ósýnilegum
kröftum“.101 Spíritistar töldu að þessi eldri þekking hefði nú öðlast aukið
vægi og jafnvel fengið staðfestingu með nýrri tækni og vísindalegum upp-
götvunum á sviði rafmagnsfræði, segulmögnunar og efnafræði. Nicholas
Goodrick-Clarke hefur bent á að sú hefð rafmagnsguðfræði sem þróaðist á
síðari hluta 18. aldar gegndi hér einnig mikilvægu hlutverki. Í þessu sam-
hengi bendir hann á verk vísindamanna á borð við Prokop Diviš, Johann
Ludwig Fricker og Friedrich Cristoph Oetinger, þar sem leitast var við að
greina þann guðlega neista eða „rafeld“ sem talinn var bærast innra með
öllum hlutum efnisheimsins.102
Spíritisminn byggist í grunninn á eldri vísindalegri og dulrænni þekk-
ingarhefð, sem hann leitast við að endurvekja og útfæra í nýju samhengi.
Eins og Goodrick-Clarke bendir á fólst sérstaða hans og rof frá eldri dul-
spekihefðum einkum í því að hér var á ferð alþýðleg hreyfing sem var
bundin rými borgaralegs hversdagslífs. Að þessu leyti greinir spíritisminn
sig afdráttarlaust frá rótgrónari dulspekikenningum sem lögðu megin-
áherslu á launhelgar, innvígslu og leiðir til andlegs þroska. Í spíritismanum
birtast verur úr duldum víddum á hversdagslegan hátt, þær banka upp á
og koma fram á ljósmyndum og hljóðupptökum, en það varð m.a. kveikj-
an að harðri gagnrýni annarra dulspekihreyfinga á starfsemi spíritista,
sem þær töldu lágkúrulega afurð ríkjandi efnishyggju og afhelgunarhátta
nútímans.103 Goodrick-Clarke horfir aftur á móti framhjá þeirri staðreynd
100 Sama heimild, bls. 61.
101 Nicholas Goodrick-Clarke, The Western Esoteric Traditions. A Historical Introduction,
Oxford: Oxford University Press, 2008, bls. 174.
102 Sama heimild, bls. 180. Sjá einnig Nicholas Goodrick-Clarke, „The Esoteric Uses
of Electricity. Theologies of Electricity from Swabian Pietism to Ariosophy“, Aries
1/2004, bls. 69–90.
103 Goodrick-Clarke, The Western Esoteric Traditions, bls. 188.
SVIPMYNDIR Að HANDAN