Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Side 78
78
Ólíkt þeim verkum sem tilheyra hefð andaljósmyndunar er Reimleikum
að morgni þó augljóslega ekki ætlað að færa sönnur á tilvist handanheims-
ins. Þegar litið er á tilraunir spíritista til rafrænnar vistunar fyrirbrigða að
handan vekur raunar athygli að þar er sjaldan gripið til kvikmyndarinn-
ar, heldur gegna ljósmyndir og hljóðupptökur hér mikilvægara hlutverki.
Þetta má ekki síst rekja til þess að örðugt virðist að fanga handanheiminn
í samfelldri hreyfingu. Hann birtist mönnum öllu heldur sem einskon-
ar leiftur úr annarri vídd er brýst fram á merkingarþrungnu andartaki
og myndbirtingar hans kallast þannig með forvitnilegum hætti á við það
sem kalla mætti hefðbundið módernískt andartak innsæis eða ljómunar.110
Þetta má að nokkru leyti rekja til ólíkra eiginleika kvikmyndarinnar og
ljósmyndarinnar, enda tengjast þessir miðlar hugmyndinni um dauðann á
ólíkan hátt. Þannig fullyrðir Christian Metz að „kvikmyndin gefi hinum
látnu á ný ásjónu lífsins, hverfula ásjónu sem óskhyggja áhorfandans styrk-
ir þó undireins“ en „ljósmyndin varðveiti“ aftur á móti „minningu hinna
látnu sem látinna“ og „svipti hlutnum úr þessum heimi yfir í annan, yfir
í annars konar tíma“.111 Ljósmyndin varðveitir andartak sem þegar er
horfið og helgað dauðanum, en kvikmyndin miðlar lifandi veruleika og
felur um leið í sér þrá eftir að vekja upp hið liðna. Í þessu felst aðdráttar-
afl andaljósmyndarinnar, sem varðveitir andartak úr lífi hinna látnu eftir
dauðann. Svipmynd hennar af því lífi er þó um leið einskonar annars stigs
dauðagríma: spor horfins andartaks úr lífinu eftir dauðann. Kvikmyndin
glímir við dauðann með gjörólíkum hætti, hún tengist þránni eftir að eiga
samræðu við þá sem gengnir eru og sigrast á dauðanum.112
Þegar rýnt er í birtingarmyndir handanlífsins í Reimleikum að morgni
er mikilvægt að huga nánar að sambandi kvikmyndamiðilsins og þeirrar
„hugmyndar um afturgöngur sem hefur fylgt kvikmyndinni allt frá því
hún kom fyrst fram“.113 Grunngjörningurinn í kvikmynd Richters, sem
felst í því að vekja dauða hluti til lífs, felur í sér samræðu við árdaga kvik-
110 Um það móderníska andartak sem hér er nefnt, þekkingarlegan sprengikraft þess
og myndræna gerð fjallar Walter Benjamin t.a.m. víða í skrifum sínum, þ.á m. í
þekktri grein um verk Marcels Proust sem birst hefur í íslenskri þýðingu: „Um
mynd Prousts“, þýð. Benedikt Hjartarson, Fagurfræði og miðlun, bls. 54–62.
111 Christian Metz, „Photography and Fetish“, October 34/1985, bls. 81–90, hér bls.
84.
112 Sjá Noël Burch, La Lucarne de l’infini. Naissance du langage cinématographique,
París: L’Harmattan, 2007, bls. 31–50.
113 Barry Curtis, Dark Places. The Haunted House in Film, London: Reaktion, 2008, bls.
150.
BEnEdikt HjaRtaRson