Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Page 92
92
samlegum rökum, en taldi svörin sem hann fékk óskynsamleg og órök-
studd. Niðurstaðan varð sú að þarna væri á ferðinni sálsýki. Máli sínu til
stuðnings vísar hann til rannsókna sænska læknisins Bror Gadelius á áhrif-
um geðsjúkdóma á teikningar sjúklinga sinna og verk sænska listamannsins
Ernest Josephson sem þjáðist af geðhvörfum.48 Samanburðurinn var hins
vegar hæpinn því Salomonsen studdist ekki við klínískar rannsóknir. Hann
horfði á listaverk og las heimildir, en komst aldrei í návígi við hina meintu
sinnisveiku listamenn. Þannig gat hann hvorki gefið nákvæma sjúkdóms-
greiningu né gert grein fyrir eðli brjálseminnar, sem hann var fullviss um
að hefði fundið sér leið úr djúpum sálarlífsins upp á yfirborðið í verk-
unum.
Abilgaard bendir á að rannsókn Salomonsens hafi að stórum hluta
verið byggð á verkum eftir ítalska, franska og þýska listamenn sem voru
sýnd í Kaupmannahöfn, en það kom ekki í veg fyrir að kenningin væri
talin eiga við um verk sem sýnd voru á Haustsýningunni árið 1918.49
Hún var skipulögð af listamönnum sem tengdust tímaritinu Klingen en
það var í nánum tengslum við Der Sturm.50 Skrif Salomonsens vöktu
miklar umræður um nútímalist og hörð viðbrögð danskra listamanna
sem töldu að sér vegið. Kenningin um geðveikina hlaut hins vegar ekki
stuðning læknastéttarinnar og beindist umræðan því fljótlega að listum
almennt og fagurfræðilegum gildum.51 Þegar síðari bókin kom út vakti
hún takmarkaða athygli og umræðan varð ekki jafn áköf, en það er hún
sem Alexander Jóhannesson styðst að stórum hluta við í fyrirlestrinum
um nýju listastefnurnar. Þar bregst læknirinn við gagnrýni á fyrri bók-
ina með því að bera kenningar sínar saman við skrif annarra vísinda- og
fræðimanna. Hann vísar m.a. í breska mannfræðinginn Hercules Read
sem taldi sig geta greint í verkum expressjónistanna löngun til að yfirgefa
siðmenninguna og snúa aftur til villtrar náttúru. Þessi túlkun var and-
stæð hugmynd Salomonsens sem sá í sömu verkum merki um flótta frá
náttúrunni – en það var einnig skoðun Alexanders. Salomonsen er ekki
heldur á sama máli og þýski listfræðingurinn Otto Grautoff, sem tengdi
48 Sama heimild, bls. 11–12.
49 Abilgaard, „Dysmorfisedebatten“, bls. 136.
50 Sjá ítarlega umfjöllun Hubert van den Berg, „Jón Stefánsson og Finnur Jónsson:
Frá Íslandi til evrópsku framúrstefnunnar og aftur til baka. Framlag til kortlagn-
ingar á evrópsku framúrstefnunni á fyrri helmingi tuttugustu aldar“, Ritið 1/ 2006,
bls. 51–77.
51 Hanne Abilgaard, Ny dansk kunsthistorie 6. Tidlig modernisme, København: Forlaget
Palle Fogtal, 1994, bls. 149–150.
MaRgRét ElísaBEt ÓlafsdÓttiR