Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Blaðsíða 96
96
eigi að halda tengslum við náttúruna. Þeir tjáðu sig á félagsfundum og á
opinberum vettvangi og höfðu áhrif út í samfélagið.
List og ekki list
Þrátt fyrir gagnrýni á verk Jóns Stefánssonar, sem síðar var „leiðrétt“, fá
fyrirlestrar og greinar Alexanders jákvæðar undirtektir. Þær birtast meðal
annars í skrifum Magnúsar Á. Magnússonar sem tekur heilshugar undir
orð Alexanders þegar hann mælir með „heilbrigðri“ íslenskri myndlist, án
öfga, sem setur fegurðina í öndvegi.63 Afstaða Magnúsar endurspeglar þá
skoðun, sem oft á eftir að koma fram síðar, að listin eigi að hefja sig upp
yfir tíðarandann og tískuna sem talin er eitt helsta einkenni expressjónism-
ans. Tíska verður þannig skammaryrði líkt og „klessuverkin“, en það orða-
lag er ekki hægt að rekja til Alexanders heldur Þorvalds Thoroddsen.64
Sigfús Blöndal tekur það upp í ferðabréfi frá Ítalíu þar sem hann minnist á
Salomonsen um leið og hann stærir sig af því að hafa kallað verk express-
jónistanna „klessumálverk“.65 Árið 1920 eru verk íslenskra listamanna hins
vegar ekki nógu „klesst“ til að lýsingin geti átt við um þau sérstaklega.
Á næstu árum koma hins vegar fram áhrif frá öfgastefnunum í verkum
einstakra listamanna, líkt og lesa má um í umfjöllun um sýningu Sveins
Þórarinssonar þar sem hann er sagður hafa sýnt eina „kubisma mynd af
Agli Skallagrímssyni“ – til gamans – á sýningu á Seyðisfirði.66 Tónninn
í skrifunum bendir til þess að daður við vanskapnaðarstefnuna hafi ekki
verið tekið alvarlega fyrr en Finnur Jónsson kemur heim frá námi.
Finnur hafði skömmu fyrir heimkomuna sýnt verk hjá Der Sturm í
63 Magnús Á. Árnason, „Um listir almennt“, Eimreiðin 1–2/1921, bls. 67–78, hér bls.
73.
64 Þorvaldur Thoroddsen, „Nýjungar og stefnubreytingar nútímans“, bls. 212:
„Í listum, myndasmíði og málverki, var tízkan ekki burðugri; ekkert var kallað
náttúrlegt, nema það væri ljótt og viðbjóðslegt; málverkin voru oft ekkert annað
en heimskuleg klessuverk, sem ekki líktist neinu, [...]; en allir þessir klaufabárðar
skutu sér, [...] inn undir hina heimspekilegu setningu, að listin væri sjálfri sér nóg,
að almenningur hefði ekki vit á að meta slíka hluti.“ Sjálfur líkir Alexander ljóð-
unum sem áður var vitnað í við „blekklessur hugsana“. Sjá Alexander Jóhannesson,
„Nýjar listastefnur“, bls. 43.
65 Sigfús Blöndal, „Ferðabrjef frá Ítaliu“, Lögrétta 6. júní 1921, bls. 2.
66 [Höfund vantar], „Málverkasýning Sveins Þórarinssonar“, Hænir 21. febrúar 1925,
bls. 1–2: „Um hana [kubisma-myndina] verður ekki dæmt, Því hún er bara „Kub-
ismi“ og hann verður aldrei annað en það sem hann er: listþrotsyfirlýsing. [...] Enda
mun hún gerð meira í gamni en alvöru, og ekkert á móti því að gefa sýnishorn af
slíku örverpi til samanburðar við náttúrlega list.“
MaRgRét ElísaBEt ÓlafsdÓttiR