Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Blaðsíða 99
99
sem getur að líta málverk, klippimyndir og óhlutbundnar teikningar sem
„torvelt“ er að átta sig á“.78
Verkin sem voru á sýningunni á Café Rosenberg bera vott um að
Finnur Jónsson hafi kynnt sér nýjustu strauma og stefnur á námsárunum
og prófað sig áfram með tækni og aðferðir. Hann var einnig móttækilegur
fyrir viðhorfum kennara sinna, ekki síst Kokoschka sem taldi að listin ætti
ekki að vera óháð reynslu listamannsins.79 Sjálfur lítur Finnur svo á að
reynslan eigi ekki aðeins að ná til atburða heldur andlegs skilnings.80 Þetta
viðhorf kemur fram í táknsæi abstraktmálverka hans, sem í íslensku sam-
hengi færa hann nær höggmyndalist Einars Jónssonar en póst-impressjón-
ískum málverkum Ásgríms Jónssonar. Dulhyggjan fer ekki alveg framhjá
samtímamönnum hans, en menntamennirnir virðast slegnir út af laginu81
líkt og almenningur, sem stendur andspænis list sem búið er að fordæma
fyrirfram. Finnur mun engu að síður hafa selt tvær abstraktteikningar
ásamt nokkrum fígúratífum málverkum sem áttu sinn stað á sýningunni.82
Umræðan um verkin sem slík lognaðist fljótt út af og fátt bendir til þess
að þau hafi haft bein áhrif á deilur næsta áratugar. Því er nær að líta svo
á að þau hafi verið birtingarmynd stefna sem þegar höfðu orðið nokkrar
umræður um og koma átti í veg fyrir að skytu rótum í íslenskri myndlist.
Sú umræða átti eftir að draga dilk á eftir sér í myndlistarumræðunni, líkt
og tilvist verkanna fyrir Finn.
Það er vel þekkt að eftir sýninguna á Café Rosenberg fjarlægðist Finnur
Jónsson konstrúktíf og kúbísk áhrif sem greina má í Örlagateningnum.
Hann sýnir engin abstraktverk á annarri einkasýningu sinni árið 192983
þar sem málverk af bátum og sjómönnum voru áberandi. Það má því rifja
78 [Höfund vantar], „Finnur Jónsson“, Vörður 28. nóvember 1925, bls. 4.
79 Heinz Spielmann, „Oskar Kokoschka“, La peinture expressionniste allemande, ritstj.
Serge Sabarsky, Paris: Herscher, 1990, bls. 115–123, hér bls. 115.
80 BJ, „Finnur Jónsson – eitt af fáu stóru nöfnunum í sögu íslenzkrar myndlistar“,
Alþýðublaðið, 4. nóvember 1976, bls. 14 og Ólafur Kvaran, „Finnur Jónsson. Yfirlits-
sýning í Listasafni Íslands“, Þjóðviljinn 7. nóvember 1976, bls. 16–17.
81 Með því er átt við að þeir virðast ekki hafa fundið þörf til að tjá sig opinberlega um
verk Finns Jónssonar.
82 E.Pá. [Elín Pálmadóttir], „Vor hinnar ungu listar. Spjallað við Finn Jónsson um
listir í Evrópu á öðrum og þriðja áratugnum“, Morgunblaðið 19. október 1970, bls.
44 og 48; Frank Ponzi, Finnur Jónsson. Íslenskur brautryðjandi, Reykjavík: Almenna
bókafélagið, 1983, bls. 10.
83 Finnur sýnir tvisvar sinnum árið 1926, á samsýningu Listvinafélagsins og með
Tryggva Magnússyni. Á fyrri sýningunni sýnir hann sömu verkin og voru á Café
Rosenberg, ef marka má blaðaskrif.
VIðTöKUR EXPRESSJÓNÍSKRA MÁLVERKA FINNS JÓNSSONAR