Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Síða 100
100
upp að Valtýr Stefánsson var ekki án umburðarlyndis haustið 1925 þegar
hann tók sérstaklega fram að hann væri hrifinn af málverki af bátum á sjó
sem hann taldi gefa til kynna góða tilfinningu listamannsins fyrir rými.
Það væri samt of mikil einföldun að halda því fram að þessi orð hafi haft
úrslitaáhrif á það stóra hlutverk sem málverk af sjómönnum léku á ann-
arri einkasýningu Finns. Sjómennskan var hluti af reynsluheimi hans og
reynsluheimurinn var forsenda listarinnar. Á fjórða áratugnum uppgötvar
hann öræfi landsins og málar þá verk sem eru stundum allt að því óhlut-
bundin, í anda þeirra verka sem Valtýr taldi gróf og í of sterkum litum, án
þess að það veki sérstakt umtal.84 Áhrifin frá þeim listastefnum sem mest
höfðu heillað hann á námsárunum voru því áfram til staðar og gerðu það
að verkum að list hans var, þrátt fyrir allt, einstök í innlendu samhengi.
Tengingin við þýsku listina gerir stöðu hans ótrygga í umhverfi þar sem
áhrif franskrar listar voru yfirgnæfandi. Sýningar hans fá eigi að síður góða
dóma lengst framan af og það er helst í Morgunblaðinu sem gagnrýnendur
eiga erfitt með að sætta sig við hrjúfa áferð verkanna.85 Þannig tekst Finni
að sætta eigin viðhorf og samfélagsins, líkt og sjá má á síðari skrifum Emils
Thoroddsen.
Kjarkurinn sem hvarf eða „bernskubrekin“
Þrátt fyrir augljósa aðdáun á dirfsku Finns á Dresden-árunum var Emil
fljótur að draga í land eftir heimkomuna. Um sýningu Finns árið 1929 hefur
hann þetta að segja: „Það er gleðilegt að sjá, að Finnur Jónsson er alveg
horfinn frá kubitískum formruglingi og innantómu kosmo-snakki þeirra
„Sturm-manna.““86 Tónninn í þessari gagnrýni og sá viðsnúningur sem
orðið hefur á afstöðu Emils gefa sterkt til kynna að ákveðin viðhorf til
myndlistar hafi verið ríkjandi. En það er ekki síður áhugavert að lesa skrif
Emils um Finn í bókinni Íslenzk myndlist sem kom út rúmum áratug síðar,
eða 1943.87 Þar lítur hann til baka og rifjar upp að myndlistin í landinu hafi
84 Í eigu Listasafns Íslands eru verk í þessum stíl s.s. Þingvallahraun frá 1926 og Upp-
blástur frá árinu 1933.
85 Benda má á B.G. [Bjarna Guðmundsson], „Málverkasýning Finns Jónssonar“,
Morgunblaðið 22. nóvember 1929, bls. 2 og Orri [Jón Þorleifsson], „Málverkasýn-
ing“, Morgunblaðið 28. apríl 1934, bls. 6.
86 E.Th. [Emil Thoroddsen], „Málverkasýning Finns Jónssonar“, Vörður 30. nóvem-
ber 1929, bls. 4.
87 Emil Thoroddsen, „Íslenzkir listmálarar“, Íslenzk myndlist: 20 listmálarar – Art in
Iceland 20 artists, Reykjavík: Kristján Friðriksson, 1943, bls. 7–21.
MaRgRét ElísaBEt ÓlafsdÓttiR