Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Qupperneq 101
101
orðið til „á mestu byltingartímum, sem um getur í sögu listanna“.88 Hann
tengir þá við tilkomu ljósmyndarinnar sem hafi gert listamönnum kleift að
átta sig á að myndlistin ætti að vera annað og meira en spegilmynd. Þetta
hafi leitt til öfgastefna þar sem „margir í hita baráttunnar þóttust eygja“
fráhvarf frá náttúrunni „sem eina bjargráðið“.89 Í kaflanum um Finn rifjar
hann upp að listamaðurinn hafi verið „snortinn af tískustefnu áranna eftir
heimsstyrjöldina“ áður en hann bætir við að „þeir, sem þekktu Finn, vissu
og nú er komið ótvírætt í ljós – að þetta var aðeins tilraunastig á listbraut
hans“. Tilraunin, sem Björn Th. Björnsson vísar síðar til, hefur öðlast
merkingu og ákveðið gildi sem „þrep í framþróun hans, sem ekki má missa
sjónar á“.90 Þessu til áréttingar eru birtar myndir af Örlagateningnum91 og
Sígaunahjónunum í bókinni, ásamt nýrri verkum. Þessi útlegging á myndlist
Finns sem þróun í átt til þroska er í samræmi við hugmyndir Alexanders
Jóhannessonar um þróun mannsins og menningarinnar. Hugmyndin felur í
sér að myndlistin muni þróast í átt til meiri fullkomnunar og helst í hendur
við þá áherslu sem lögð er á að fjalla um þróunina í verkum einstakra lista-
manna. Þetta viðhorf endurspeglast í myndlistargagnrýni þriðja og fjórða
áratugarins þar sem gert er ráð fyrir að hver ný sýning sé fremri hinni
síðustu. En það er einnig athyglisvert að sama ár og bókin um íslensku
listmálarana kom út hélt Finnur yfirlitssýningu í tilefni af fimmtugsafmæli
sínu, þar sem hann sýndi verkin frá Café Rosenberg aftur.92 Hann er þá
fyrir löngu viðurkenndur af gagnrýnendum, kollegum sínum, sem skrifa
um „kúbísku“ abstraktverkin af velvilja og umburðarlyndi þeirra sem fyr-
irgefið hafa gömul bernskubrek.93 Sú fullyrðing æsu Sigurjónsdóttur að
88 Sama heimild, bls. 7.
89 Sama heimild, sama stað.
90 Sama heimild, bls. 16.
91 Verkið bar upphaflega titilinn Teningnum kastað, sbr. Íslenzk myndlist: 20 list-
málarar, bls. 95. Hjá Birni Th. Björnssyni ber verkið einnig þennan titil sem
virðist ekki hafa breyst fyrr en eftir sýninguna í Strassborg. Í Íslenskri listasögu
Ólafs Kvaran heitir verkið Örlagateningurinn í II. bindi en í III. bindinu er aftur
talað um verkið Teningnum kastað án þess að tekið sé fram að um sama verk sé að
ræða.
92 Sjá Jón Þorleifsson [Orri], „Málverkasýning Finns Jónssonar“, Morgunblaðið 27.
nóvember 1943; Bjarni Guðmundsson, „Málverkasýning Finns Jónssonar“, Vísir
25. nóvember 1943, bls. 2; R.J., „Málverkasýning Finns Jónssonar“, Alþýðublaðið
28. nóvember 1943, bls. 4.
93 Á tímabilinu 1929 til 1943 fjalla gagnrýnendur yfirleitt vel um sýningar Finns
Jónssonar, með áðurnefndum undantekningum. Ákafasti talsmaður Finns er vinur
hans Jóhann Briem, en jafnvel Jón Þorleifsson, sem sættir sig aldrei fullkomlega við
grófa pensildrættina, getur ekki annað en hrósað honum fyrir áræði, frumleika og
VIðTöKUR EXPRESSJÓNÍSKRA MÁLVERKA FINNS JÓNSSONAR