Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Page 117
117
sögn Þórðar niður óhreyfða eftir minni, hversu heiðríkt sem það kann að
hafa verið. Þannig er full ástæða til að leggja ekki fullan trúnað á formála
Elíasar. Til að öðlast einhvers konar skýringu á tilurð Mennt er máttur
er nær að líta til smásögu Elíasar, Saman lagt spott og speki, en finna má
augljós líkindi með verkunum, bæði í því sem lýtur að formi og inntaki.
Í smásögunni ræðir eldri maður við sér yngri mann og greinir hann af
sömu mælsku frá svipuðum – ef ekki sömu á stundum – sögum jafnt og
lífsskoðunum og þeim sem er að finna í Mennt er máttur. Því er mikilvægt
að benda á að Elías sendir smásöguna frá sér einu ári áður en hann gerir
Þórði þann greiða að rita eftir honum.32
Halda má því fram að Elías hafi ekki eingöngu fært saman textann eftir
ráðum Þórðar, þar eð sú samvinna hefði ekki leitt af sér jafn stórt verk og
raun ber vitni. Það verður að teljast líklegra að við ritun Mennt er mátt-
ur hafi Elías í fyrstu hjálpað Þórði með öllum ráðum við að draga fálm-
kennda óra hans og pappírskrot skipulega til stafs. Við andlát Þórðar tekur
Elías hins vegar alfarið við keflinu og við það hlýtur upphaflegt markmið
handritsins að taka afdrifaríkum breytingum, sama þótt Elías hafi reynt
að setja það saman eftir höfði Þórðar. Allar þær sögur og þankagangur
sem einkenndu Þórð – og Elías þekkti eftir áratuga vináttu – hafa gert
honum kleift að ljúka við verkið í anda Þórðar, en með aðferðum skáld-
skaparins. Við þessi umskipti verður Þórður óneitanlega að einhvers konar
skáld sagnarpersónu í meðförum Elíasar. Á hinn bóginn hefur samvinna
félaganna mögulega valdið því að höfundur handritsins færist yfir í að vera
margbrotin samansett hugmynd sem kemur algjörlega í veg fyrir að lesandi
geti greint hver standi að baki hverju textabroti fyrir sig innan verksins.
32 Elías Mar, Saman lagt spott og speki, Reykjavík: Helgafell, 1960. Elías segir í við-
tali að smásagan hafi í fyrstu aldrei átt að koma út. Hann hafi aðeins ætlað að gefa
Þórði hana „prívat í afmælisgjöf.“ Það hefur því verið háð algjörri tilviljun að
Ragnar í Smára verður á vegi hans þegar Elías er á göngu í miðbænum einn dag-
inn með handritið meðferðis í tösku. Ragnar kemst á snoðir um það og þar með
kemst smásagan á prent í 150 tölusettum eintökum. Pétur Blöndal, Sköpunarsögur,
Reykjavík: Mál og menning, 2007, bls. 274. Samkvæmt Elíasi létu viðbrögðin ekki
á sér standa í opinberri menningarumræðu við útgáfu smásögunnar. Elías segist
fljótt hafa fundið fyrir köldu viðmóti frá menntamönnum, listamönnum og öðrum
áhrifamönnum af menningarsviðinu, enda hafi sagan þótt ýta undir samkynhneigð
og andkristileg viðhorf. Elías Mar, „Aldarafmæli Þórðar“, Þjóðviljinn 24. ágúst 1990,
bls. 24. Þess má geta að forsíðan er prýdd teikningu eftir Alfreð Flóka og sýnir tvo
nakta drengi í faðmlögum á meðan eldri maður horfir á þá.
BRæðRABYLTA