Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Page 121
121
túlkun á sér. Lesturinn verður meira krefjandi fyrir vikið, því Mennt er
máttur rúmast ekki innan neinnar afmarkaðrar bókmenntagreinar. Verkið
hefur í þessum skilningi tilhneigingu til að halda textanum á mörkum
merkingar í síkvikri verðandi hans.
Innbyggt andóf Mennt er máttur gegn hefðbundinni formskynjun á
bókmenntatexta má lesa í ljósi umræðu Ástráðs um Þórberg og Bréf til
Láru. Ástráður segir verkið vera eitt brautryðjandaverka íslensks mód-
ernisma. Róttækni Bréfs til Láru felst einkum í því að það „fer út fyrir svið
bókmenntanna, afneitar mörkum skáldskaparins eins og þau eru samkvæmt
ríkjandi greinarvitund. En mér finnst ekki fráleitt að halda því fram að slíkt
neikvæði, sem í þessu tilfelli mætti kallast mótvitund, felist í eðli módern-
ismans; hann leitist við að afneita viðteknum mörkum merkingarsviða.“46
Mótvitund Þórðar er aftur á móti ekki aðeins bókmenntaleg. Hún er þvert
á móti undirliggjandi þáttur í allri tilveru hans og lífsskoðun en Þórður
virðist eingöngu þrífast í allsherjar andstöðu við hvers kyns ríkjandi form-
hugsun. Margbrotin formgerð Mennt er máttur vitnar þannig ekki aðeins
um andóf gegn hefðbundinni afmörkun bókmenntagreina í einfaldasta
skilningi, heldur kemur samspil forms og inntaks allsherjar róti á mörkin
milli andstæðna eins og veruleika og skáldskapar, lífs og listar.
Þórður er í þessum skilningi fráhverfur því heildstæða sundurgreinandi
umhverfi sem honum finnst reykvískt smáborgarasamfélag vera. Formgerð
Mennt er máttur ber afstöðu Þórðar skýrt vitni. Hún helst í hendur við inn-
tak verksins og sýnir að Þórður er frjáls og ekki undir oki hvers kyns – þó
einkum siðferðislegra – hafta er einkenna smáborgaralega hugsun og líf-
erni. Þórður reynir þannig á engan veg að finna frásögn sinni lagskipta eða
formfasta byggingu sem leiðir af sér frágengið og rökrétt bókmenntaverk
í líkingu við ríkjandi samfélagsgerð. Þórður hafði til að mynda sjálfur á
orði við handritasmíðar þeirra Elíasar að hann hafi litið á Mennt er máttur
sem tónverk.47 Sé litið á verkið á þeim forsendum geta þær fjölmörgu
endurtekningar sem fyrirfinnast í því þjónað lykilhlutverki í margbrotinni
byggingu þess, sem stef eða klifanir er halda hljómmiklu tónverki saman.
Þannig má segja að Þórður hafi með formeiningum tónlistar leitast við að
leysa hughrif og tilfinningar úr læðingi í stað þess að fara með einhlítan
boðskap sem leiði til vitrænnar túlkunar.
46 Sama heimild, bls. 147 [leturbr. í frumtexta].
47 Þorsteinn Antonsson, Ljósberar og lögmálsbrjótar: mannlýsingar, Reykjavík: Pjaxi,
2004, bls. 52.
BRæðRABYLTA