Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Page 122
122
Óhefðbundin formhugsun Þórðar í Mennt er máttur felst fyrst og fremst
í því hvernig honum tekst að skapa heildstætt verk úr ótal mörgum og
ólíkum – ef ekki á stundum andstæðum – textabrotum. Formgerð Mennt er
máttur verður þannig ekki aðeins til þess að sýna margbrotinn mótsagna-
kenndan mann, heldur þjónar hún einnig – hvort sem það er meðvitað eða
ómeðvitað – þeim tilgangi að dýpka inntak verksins án þess þó að hægt sé
að henda fullkomlega reiður á því.
Margbreytileg birtingarmynd Þórðar í Mennt er máttur er í þessu tilliti
ekki svo ólík skilgreiningu Guðbergs Bergssonar á módernisma, sem er að
finna í viðtalsbók þeirra Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur. Fyrir Guðbergi er:
svonefndur módernismi í bókmenntum dæmigerður fyrir frelsi þess-
arar aldar. Því innan hans er einstaklingnum, skáldinu, allt leyfilegt
í efnisvali, stíl og í umgengni við tungumálið, svo ekki sé talað um
persónusköpun eða upplausn persóna verkanna. [...] Aldrei í sögu
listanna hefur rómantísk tilfinning einstaklingsins fyrir sjálfum sér
verið jafn taumlaus og frjáls og innan þessarar stefnu. En um leið
býður frelsið að sjálfsögðu upp á háðið. Þú hefur tekið eftir því að
frjáls maður er öðru fremur hlægilegur. Hann lætur oft asnalega. Við
hlæjum þegar form fara úr skorðum, og þau fara helst úr þeim við
frelsið. Ófrjáls maður er í skorðum. Það þóttist ég sjá og þekkja.48
Guðbergur byggir Tómas Jónsson: metsölubók á þessari athugun. Það er ekki
fráleitt að heimfæra orð hans upp á Mennt er máttur. Bæði verkin boða
í formi og inntaki róttækt endurmat á íslenskri bókmenntahefð annars
vegar og sambandi einstaklings og umhverfis í nútímasamfélagi hins vegar.
Afstaða sögumanna til nútímans er aftur á móti andstæðum háð. Tómas
– sem táknmynd aldamótakynslóðarinnar – fellur um sjálfan sig í örvænt-
ingarfullri endurreisn liðins hugmyndaheims. Þórður fagnar aftur á móti
marglyndi nútímans á kostnað siðferðislegs taumhalds sem hann telur ein-
kenna afturhaldssamt reykvískt smáborgarasamfélag og er til þess gerður
að láta reyna á það sem nútímalegt líferni hefur upp á að bjóða.
48 Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, Guðbergur Bergsson metsölubók, Reykjavík: Forlagið,
1992, bls. 115.
svavaR stEinaRR guðMundsson