Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Qupperneq 123
123
Eftirsæla49
Þorsteinn Antonsson og Hjálmar Sveinsson hafa haldið nafni Þórðar
Sigtryggssonar hvað mest á lofti í almennri menningarumræðu. Þeir hafa
báðir vikið að því í skrifum sínum um Þórð að Guðbergur hljóti að hafa
lesið drög að Mennt er máttur áður en hann sendi frá sér Tómas Jónsson:
metsölubók.50 Þorsteinn upplýsir jafnframt í Þórðargleði, nýútkominni bók
sinni um höfundarferil Elíasar, að Elías og Guðbergur hafi átt í þriggja ára
ástarsambandi á sjötta áratugnum eða allt þar til Guðbergur fór utan til
náms árið 1956.51 Guðbergur hlýtur í það minnsta að hafa kynnst Þórði
nokkuð á þeim tíma.
Tengsl þríeykisins kunna mögulega að hafa verið þrungin neikvæðri
spennu, en Þórður var vægast sagt ágengur í garð Elíasar ef marka má þau
bréfaskipti þeirra sem Þorsteinn birtir í Þórðargleði. Þórði er enn fremur
iðulega gefið að sök að hafa helst viljað einangra Elías og laga samband
þeirra tveggja að forngrískri erótískri fyrirmynd lærisveins og meistara,
en Árni Bergmann segir Þórð hafa beitt „þeirri aðferð oftar en ekki þegar
hann vildi „allt eða ekkert“ í sambandi við unga menn að hrekja frá þeim
kærustur með sönnum eða upplognum sögum af því hve rækilega hann
hefði notið strákanna.“52
Greinarhöfundur hefur á hinn bóginn aðeins rekist á tvær ritaðar heim-
ildir frá hendi Guðbergs sem vitna um að þeir Þórður voru í það minnsta
kunnugir. Það er engu að síður athyglisvert að þar sem Þórður kemur fyrir
í skrifum Guðbergs er hann afgreiddur með fremur hlutlægu og kuldalegu
viðmóti. Hér er annars vegar hægt að nefna „Í þessu herbergi hefur búið
doktor“, minningargrein Guðbergs um Málfríði Einarsdóttur. Þar gerir
hann frekar lítið úr áratugalangri vináttu Málfríðar og Þórðar með því að
nefna nafn Þórðar aðeins einu sinni og í algjöru framhjáhlaupi, án frek-
49 Þórður skiptir „góðri uppáferð í þrjá kafla: forsælu, hásælu og eftirsælu. Hvað
mig snertir, met ég eftirsæluna ekki hvað minnst.“ Þórður Sigtryggsson, Mennt er
máttur, bls. 99.
50 Þorsteinn Antonsson, Ljósberar og lögmálsbrjótar, bls. 53. Þorsteinn Antonsson,
Þórðargleði: þættir úr höfundarsögu Elíasar Mar, Reykjavík: Sagnasmiðjan, 2011, bls.
117 og 182. Þórður Sigtryggsson, Mennt er máttur, bls. 224–225.
51 Þorsteinn Antonsson, Þórðargleði, bls. 92.
52 Árni Bergmann, „Hinsegin bækur og menn“, bls. 128. Þorsteinn Antonsson vitnar
m.a. í eitt bréf sem Þórður skrifar til ungrar konu sem Elías hafði átt vingott við.
Bréfið vitnar um umrædda ágengni Þórðar en hann ræðst harkalega að persónu
Elíasar í löngu máli í þeim tilgangi að komast upp á milli parsins. Þorsteinn Ant-
onsson, Þórðargleði, bls. 139–141.
BRæðRABYLTA