Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Side 138
138
um bæði verkin og ekki síður sköpunarmætti sjálfsævisögulegra frásagna.
Hann leikur sér með sjálfssköpun í textanum, veltir fyrir sér minningum,
frásagnaraðferðum og sögusögnum og varpar þannig ljósi á sjálf, minni og
frásögn.
Í umfjöllun um minni og minningar hefur frá fornu fari verið stuðst
við myndlíkingar af ýmsu tagi. Plató og Aristóteles líktu minninu við
vaxtöflu (þó í ólíkum tilgangi), en aðrir notuðu rýmið sem grunneiningu
minnisins og sem hjálpargagn minnistækni.9 Við upprifjun getur einmitt
verið gott að hafa rými til að styðjast við og þá gjarnan húsakynni sem
við þekkjum vel. Í sjálfsævisögum hafa margir beitt þessari aðferð, lesið
sig eftir vistarverum og fundið þar atburði og fólk úr fortíð. Jakobína
Sigurðardóttir fæst við þetta í endurminningum sínum, Í barndómi (1994),
en minnið svíkur hana á stundum, hún reynir að fikra sig yfir á næsta bæ,
„ég þreifa fyrir mér í myrkri tímans, en finn ekki dyrnar“.10 Þórbergur
Þórðarson á ekki í slíkum vanda þegar hann notar rýmið sem leið inn
í fortíðina í Suðursveitarbókum sínum og sem grunn að frásögn sinni.
Húsin á Skinnastað þar sem Sigurður elst upp eru einnig sérlega mikil-
vægur þáttur í mótun og viðhaldi minnisins: „rýmisskipan hússins er föst
einhvers staðar innst í huganum, ég gæti teiknað hana upp hvenær sem
er“ (Bernskubók, bls. 17) og hann heldur áfram: „Þetta rými er nátengt
vefn aði minninganna, það raðar og skipar niður, sendir minningar í rúmið
að sofa úr sér þráhyggju, vekur aðrar til lífsins með sól inn um austur-
gluggana, hitar kakó á eilífðarvél eldhússins, býður til kyrrðarstundar í
sparistofunni“ (bls. 17). Og nokkrum köflum er skipt eftir vistarverum svo
minnir á ógnar nákvæma lýsingu Þórbergs á húsaskipan á Hala í Suðursveit
í Steinarnir tala (1956).11 Rými hefur margvísleg áhrif á minnið, kveikir til
að mynda skynhrif og það gera líka ákveðnir hlutir eða innanstokksmunir,
eins og til að mynda eldhúsborðið: „ég þarf ekki annað en hugsa til þess
og draumvirkni minnisins fer í gang“ (bls. 37). Smám saman sér vitundin
út fyrir húsið og aftur má sjá hér hliðstæðu við Þórberg þar sem sjón-
deildarhringurinn víkkar smám saman (bls. 42). Ekki einungis getur rými
9 Sjá umfjöllun um þetta til dæmis hjá Frances Yates, The Art of Memory, London:
Routledge og Kegan Paul, 1966.
10 Jakobína Sigurðardóttir, Í barndómi, Reykjavík: Mál og menning, 1994, bls. 31.
11 Sjá nánar um lýsingar Þórbergs í grein minni og Atla Antonssonar, „Combray og
Suðursveit: Um minni og þroska í Steinarnir tala og Leiðin til Swann“, „Að skilja
undraljós“. Greinar um Þórberg Þórðarson, verk hans og hugðarefni, ritstj. Bergljót
Soffía Kristjánsdóttir og Hjalti Snær ægisson, Reykjavík: Bókmennta- og list-
fræðistofnun HÍ og Háskólaútgáfan, 2010, bls. 61–81.
GUNNÞÓRUNN GUðMUNDSDÓTTIR