Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Page 146
146
sem ég var, hann gat ekki lengur lifað lífinu vegna þess að hann var
að skrifa lífið, reyna að ná utan um framvindu atburða, lítilla og
stórra atvika. (Bernskubók, bls. 208)
Þetta er snemmborin lexía í því að vonlaust er að skrá allt, eins og að ætla
sér að skrifa tæmandi sjálfsævisögu; höfundurinn verður að velja annað
hvort, að lifa eða skrifa, og sér maður hér fyrir sér goðsöguna um Proust
í bólstraða herberginu sínu, sem hætti að lifa til að skrifa. Hvort hefur
áhrif á annað, en rekur sig hvort á annars horn: „Raunveruleikinn hafði
stöðugt þvælst fyrir skráningu raunveruleikans sem svo truflaði raunveru-
leikann“ (Bernskubók, bls. 211). Og fleira er erfitt að ná utanum í skrifum,
hversdagslegt umhverfi eins og kirkjustéttin og húsflugurnar í glugganum
hafa skroppið undan skrifunum: „Hef reynt að yrkja um þessa stétt marg-
oft, ánamaðkana, dauðar flugur í glugga, allir þeir textar hafa jafnharðan
dáið, líklega flugum og möðkum til samlætis“ (Bernskubók, bls. 150). En
hér tekst það, í endurminningabókinni, þar mega ánamaðkurinn og hús-
flugan vera, þurfa ekki að hafa skáldlegan tilgang eða vera neitt annað
en þetta: minning um stétt, ánamaðk og húsflugur. Hversdagurinn hefur
augljósari tilverurétt í sjálfsævisögulegum skrifum, einmitt vegna þess að
minningar þurfa ekki að hafa tilgang, frásagnarboga, lausn. Takmarkið er
mögulega að breyta sjálfum sér í texta því: „Allt, sem ekki breytist í texta,
hverfur. Líka lífið, alveg sérstaklega lífið, ævin svonefnd. ævisaga heitir
lífssaga á mörgum útlendum málum [...] Sá sem ekki hefur breyst í texta
hefur ekki lifað“ (Bernskubók, bls. 262). Dauðinn er réttlæting og kveikja
frásagnar samkvæmt Walter Benjamin21 og Sigurður segist snemma hafa
verið upptekinn af því að semja líkræður, jafnvel um lifandi fólk, sem hægt
er að skýra með þeim ótta að allt hverfi sem ekki er skrifað niður (bls. 265).
Fyrsta ljóðið sem hann birtir opinberlega fyrir utan menntaskólablöð hét
einmitt „ævisaga“ en ekki ætlar hann þó að skrifa slíka og segist hafa stað-
ið við það; Minnisbók er bók um minnið:
Leit minnisins að sannleika um fortíðina. Minnið er skáld að því
leyti að það býr til skáldskap jafnharðan úr staðreyndum, býr til
persónu í skáldverki úr okkur sjálfum. Þessi bók sem þú ert að lesa
núna er um bernskuna eins og nafnið bendir til. Atburðirnir eru
ekki bara sannir af því að þeir gerðust heldur vegna þess að skáld-
21 Walter Benjamin, „The Storyteller: Reflections on the Works of Nikolai Leskov“,
Illuminations, þýð. Harry Zohn, London: Fontana, 1992, bls. 83–107, bls. 93.
GUNNÞÓRUNN GUðMUNDSDÓTTIR