Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Qupperneq 150
150
ekki verið nægjanlega rannsökuð og því sé lítt um hana vitað. Framlag sál-
greiningarinnar er þó umtalsvert, bendir Freud á, og liggur það ekki síst
í þeirri uppgötvun að gleymska, það að minningar hverfi úr vitundinni,
stafi ekki, eins og jafnan hefur verið álitið, af „eyðingu minnisspora“.1
Þvert á móti; frá sjónarhorni sálgreiningarinnar getur ekkert „sem á
annað borð hefur tekið sér bólfestu í sálarlífinu […] glatast“.2 Vangaveltur
Freuds um þetta efni minna um margt á eldri rannsóknir hans í verkinu
Draumaráðningar/Die Traumdeutung, en þar heldur hann því fram að þótt
minningar dofni sjálfkrafa með tímanum og hverfi loks af sjónarsviðinu sé
það alls ekki sjálfsagt ferli, og ekki endanlegt. Þvert á móti álítur Freud að
gleymska sé afleiðing virkrar vinnu vitundarinnar sem að sumu leyti eigi
sér stað í þeim tilgangi að vernda lífveruna fyrir áreiti.
Freud setur hér fram myndræna útfærslu á hugmynd sem ætlað er að
skýra hvernig lifuð reynsla og skynjun hljóta ávallt endanlegan geymslu-
stað í dulvitundinni: „Raunar er það höfuðeinkenni dulvitaðra ferla að þeir
eru óeyðanlegir. Í dulvitund er engu hægt að ljúka. Ekkert er liðin tíð.
Engu er gleymt“.3 Hægt er að orða þessa kenningu Freuds með einföldum
1 Sigmund Freud, Undir oki siðmenningar, þýð. Sigurjón Björnsson, Reykjavík: Hið
íslenzka bókmenntafélag, 1990, bls. 17. Þegar að hugtakanotkun Freuds kemur
er rétt að hafa í huga að „minnisspor“ er í vissum skilningi samheiti fyrir minni,
en fyrra hugtakið ber þó með sér ýmsa mikilvæga merkingarauka og tengjast
þeir einkum þeim vandamálum sem Freud stóð frammi fyrir þegar hann leit-
aðist við að kortleggja minnisvirkni í samræmi við almenna staðfræði hugans, en
vandamálin lutu fyrst og fremst að því hvernig skilja beri ólíka virkni minnisins á
sviði vitundar, forvitundar og dulvitundar. Staðfræði hugans setti Freud fram með
myndrænum hætti, fyrst í Rannsóknum á móðursýki/Studien über Hysterie (1895) með
Josef Breuer og svo í Draumaráðningar. Eftir það hélt Freud áfram að glíma við
„kortlagningu“ minnisins í ýmsum ritgerðum, og er þar þekktust „Hugleiðing um
‘Undraskriftöfluna’“/„Notiz Über Den ‘Wunderblock’“ (1925).
2 Sigmund Freud, Undir oki siðmenningar, bls. 17.
3 Sigmund Freud, Draumaráðningar, þýð. Sigurjón Björnsson, Reykjavík: Skrudda,
2010, bls. 414. Freud ræðir frekar um tímaleysi dulvitundarinnar í ritgerðinni
„Dulvitundin“/„Das Unbewusste“ (1915) og tekur þar fram með afdráttarlaus-
um hætti að eyðingarmáttur tímans eigi þar ekki við: „Ferlar í dulvitundinni eru
tímalausir, þeim eru m.ö.o. ekki raðað í tímaröð, framrás tímans hefur engin áhrif
á þá, þeir tengjast tímahugtakinu ekki neitt“. Sigmund Freud, „The Uncon scious“,
The Complete Psychological Works of Sigmund Freud, vol. 14. Þýð. og ritstj. James
Strachey, London: Hogarth Press, 1957, bls. 187. Í þekktri ritgerð um Freud,
tíma og minni leitast Jacques Derrida hins vegar við að endurtúlka og í einhverj-
um skilningi endurskrifa þær forsendur sem Freud styðst við þegar hann tengir
vitundina við tímalega framrás en dulvitundina við minni og tímaleysi, og lýsir
meðal annars tilraunum til að „tímavæða hið ‘svo-kallaða’ tímaleysi dulvitund-
BjöRn ÞÓR vilHjÁlMsson