Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Qupperneq 153
153
merkingarfræðilega tengingu tákns eða miðils við veruleikann.7 Vísirinn
lýtur ekki lögmáli mismunarins heldur er virkni hans framkölluð með
beinni tilvistarlegri tengingu.8 Hreyfing vindhana er vísir um vindinn sem
blæs, fótsporið sem Robinson Crusoe sér í sandinum er vísir um að ein-
hver annar sé á eyjunni, hringing dyrabjöllunnar er vísir þess að einhver
bíði fyrir utan o.s.frv.
Tenging vísisins og þess sem vísað er til þarf því ekki að vera í formi
fyrirmyndar og eftirlíkingar, en slíkt samband er þó mikilvæg birting-
armynd vísisins í tæknimiðuðum nútímanum. Í ljósmynd af manneskju
felst til dæmis staðfræðilegur vísir þess að á ákveðnum tímapunkti hafi við-
komandi einstaklingur verið staddur í því umhverfi sem myndin birtir – sú
var að minnsta kosti raunin fyrir tíma myndvinnsluforrita og stafrænnar
tækni. Hér má sjá ákveðinn samhljóm með „minnissporinu“, sem í kerfi
Freuds stendur eins og óafmáanlegur vísir í dulvitundinni um atburð sem
átt hefur sér stað. Mikilvægast er þó að vísinn má túlka sem hið upphafna
viðmið safnasóttarinnar; ekki eru aðeins upplýsingar varðveittar heldur
stendur vísirinn í tilvistarlegu og áþreifanlegu sambandi við veruleikann.
Að hægt sé að varðveita þessa beintengingu við fortíðina umfram hið ein-
staka æviskeið ögrar ægivaldi tímans.
Ýmsir hafa haft orð á þeirri sögulegu tilviljun að kvikmyndatæknin
skyldi koma fram á sama tíma og sálgreiningin varð til sem „tækni“ til
djúptúlkunar og greiningar á þeim andlegu meinum sem brutust fram í
taugaveiklun og líkamlegum kvillum góðborgara Vínar um aldamótin.9
Samslátturinn birtist einnig á sviði hugtakanotkunar, líkt og E. Ann Kaplan
7 Jacques Derrida, Archive Fever. A Freudian Impression, þýð. Eric Prenowitz, Chicago
og London: The University of Chicago Press, 1996, bls. 97–101. Sjá einnig C.S.
Peirce, „On the Nature of Signs“, Peirce on Signs, ritstj. J. Hoopes, Chapel Hill og
London: The University of North Carolina Press, 1991, bls. 141–144. Um vísinn
er einnig fjallað í W.J.T. Mitchell, „Myndir og mál. Nelson Goodman og málfræði
mismunarins“, þýð. Steinunn Haraldsdóttir, Ritið 1/2005, bls. 165–192, hér bls.
174–178.
8 „Lögmál mismunarins“ vísar til kerfishugmynda svissneska málfræðingsins Ferdin-
and de Saussure um merkingu í tungumáli þar sem loku er skotið fyrir möguleikann
á skírskotun tákna til veruleikans en merking þess í stað framkölluð í krafti vensla
innan tiltekins kerfis, nokkuð sem síðar varð grunnur formgerðarstefnunnar, sjá
Saussure, Course in General Linguistics, þýð. Roy Harris, Chicago: Open Court,
1998.
9 Eins og titillinn gefur til kynna er þessi samsláttur útgangspunktur ritgerðarsafnsins
Endless Night. Cinema and Psychoanalysis, Parallel Histories, ritstj. Janet Bergstrom,
Berkeley, Los Angeles og London: University of California Press, 1999.
SöGUR ÚR VAXMYNDASAFNINU