Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Side 161
161
aldar skáldsögu Mary Shelley og draums aðalsöguhetjunnar, Viktors
Franken stein, um að skapa líf með aðstoð tækni og vísinda, til að lýsa
þessum þræði umræðunnar í árdaga kvikmyndatækninnar. Burch bendir
á að rætt hafi verið um kvikmyndatæknina líkt og tilkoma hennar miðaði
að einu marki, „að uppfylla hinn endanlega draum, að kveða niður dauð-
ann“.34 Hér má sjá svipaða hugmynd og Freud glímdi við þegar hann
ræddi ótakmarkaða (en ekki eilífa) geymsluhæfileika dulvitundarinnar, en
með því að yfirfæra varðveisluhæfnina í vélræna tækni er skref tekið til að
mæta forgengileika vitundarinnar, m.a. með möguleika þess að varðveita
„minninguna“ um nákvæma ásýnd og fas fólks og fyrirbæra.
Þegar Burch skoðar þessa „forsögu“ kvikmyndaumræðunnar á hann
öðrum þræði í samræðu við kenningar sem André Bazin setti fram um
miðja öldina um kvikmyndina sem eins konar burðarvirki andspænis for-
gengileikanum. Í ritgerð sem út kom árið 1947, „Verufræði hinnar ljós-
mynduðu ímyndar“/„Ontologie de l’image photographique “, ræðir Bazin
sérstöðu kvikmyndarinnar andspænis öðrum listgreinum. Líkt og titillinn
gefur til kynna er því haldið fram að sérstaða kvikmyndarinnar sé nátengd
verufræðilegum eiginleikum hennar. Bazin grípur auk fingrafaranna til
samanburðar við líkklæði sem tekið hafa á sig ásýnd hins látna (hér má
skýrt heyra enduróm orðræðunnar sem Burch fjallar um, auk þess sem
náin tengsl eru milli þessara myndlíkinga og vísisins) og gengur jafnvel svo
langt að segja að „í krafti verðandinnar samlagist eftirmyndin fyrirmynd-
inni“.35 Það er þessi meinti verufræðilegi samsláttur fyrirmyndar og eft-
irmyndar sem Bazin notar til að skýra sérstakt tilfinningalegt mikilvægi
fjölskyldualbúma; ljósmyndirnar varðveita minningar á máta sem gamla
fjölskyldumálverkinu var ókleift að gera, þær eru ekki „uppbót“ fyrir eitt-
hvað sem er fjarverandi heldur fela þær í sér áþreifanleg ummerki hins
liðna.36
Í kenningakerfi Bazins eru verufræðilegir eiginleikar hinnar ljósmynda-
legu ímyndar teóretísk forsenda upphafningar hans á raunsæi í kvikmynda-
gerð. Vísiseiginleikar ímyndarinnar tryggja að hún sé tær birtingarmynd
veruleikans.37 Ólíkt öllum öðrum listformum er ímynd kvikmyndarinnar
34 Sama heimild, bls. 21.
35 André Bazin, „The Ontology of the Photographic Image“, bls. 14.
36 Sama heimild, bls. 14 og 15.
37 Hugmyndir um „hreina og tæra birtingarmynd veruleikans“ má gagnrýna og bent
hefur verið á að fagurfræði Bazins skorti vitund um að sjálf skynjun hinna „hreinu
ímynda“ er skilyrt af ímyndum á borð við þær sem hann upphefur og telur sig skynja
SöGUR ÚR VAXMYNDASAFNINU