Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Qupperneq 163
163
þá grundvallarþrá, og óröklegu höfnun í framkvæmd, sem liggur eftirlík-
ingarhneigð mannsins til grundvallar.
Það sem Bazin ræðir hér, að forgengileiki mannlegrar tilvistar kalli fram
tilraunir til andófs, felur í sér sams konar drifafl og liggur að baki byggingu
minnisvarða og hugmyndum um sögulegt minni, en auk þess má greina
skýr tengsl við þá rökvísi sem Derrida gerir að umfjöllunarefni undir heit-
inu „safnasótt“. Sérstaða Bazin liggur í áherslu hans á vísinn. Ekki nægir
að varðveislan sé sýnileg heldur verður hún að fela í sér tilvistarlega teng-
ingu við það sem varðveitt er, við það sem minnst er, til að hverfulleika
tilvistarinnar sé í raun ögrað. Þess vegna er líkaminn sjálfur, hinn smurði
líkami, hinn upphaflegi minnisvarði að mati Bazin, frummynd þeirra var-
anlegu minnismerkja sem tryggja varðveislu hugrænna minnisferla. Þetta
er „múmíuáráttan“, hin óröklega löngun til að hafa betur í glímunni við
dauðann, sem Bazin telur grunn þeirra listgreina sem hafa raunsæislega
eftirlíkingu af veruleikanum að leiðarljósi; „framsetning lífs verður varð-
veisla lífs“.42
Bazin fer ekki í grafgötur með að dulrænir og trúarlegir þættir víki
snemma úr sögulegri þróun listgreina, en múmíuáráttuna setur hann engu
að síður fram sem hvatann að raunsæislegum framsetningaraðferðum list-
rænnar tjáningar. Hér má nánast skilja Bazin sem svo að menn eigi sér
einhvers konar sameiginlega dulvitund og þaðan, líkt og Freud hélt fram,
hverfi ekkert, ekkert gleymist. Annað þekkt „lögmál“ Freuds segir að það
sem kveðið er niður og bælt muni ávallt birtast á nýjan leik (e. return of the
repressed) og í því samhengi má jafnframt túlka umræðu Bazin um tilkomu
kvikmyndalistarinnar. Vísirinn uppfyllir sömu kröfu um tilvistarlega nánd
og hinn smurði líkami gerði á sínum tíma, og raunar verður tengingin bók-
stafleg þegar Bazin lýsir ljósmyndinni sem svo að hún „smyrji tímann“.43
Að mati Bazin stefnir þróun tækninnar ekki að óþekktum punkti í fram-
tíðinni, heldur miðar „þróunin“ að endurhvarfi til fullkomins upprun-
ans. Hvort heldur sem við bendum á tilkomu hljóðsins, litmyndarinnar,
þrívíddartækni eða breiðtjaldsmyndarinnar, eru þetta allt staksteinar í til-
rauninni til að endurskapa þá hreinu nærveru sem fólst í hinu smurða líki,
„tákni“ sem hvorki táknaði, vísaði né líkti eftir einhverju fjarverandi heldur
var í raun hluturinn sjálfur. Í þessum skilningi markar múmían upphaf
áráttunnar og þrárinnar en líka markmið hennar og endalok.
42 André Bazin, „Ontology of the Photographic Image“, bls. 9.
43 Sama heimild, bls. 14.
SöGUR ÚR VAXMYNDASAFNINU