Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Side 168
168
beitt til þess að þjappa saman formum skemmtitækjanna og fylla myndflöt-
inn með hreyfingu ljósanna sem lýsa upp tækin. Myndblöndun sem sækir
áhrif til franska impressjónismans er þannig notuð til að miðla skynhrifum
hins tæknivædda umhverfis sem umlykur nútímamanninn hvarvetna og
skemmtigarðurinn endurframleiðir í ýktri mynd.
Í upphafsatriðinu sjást gestir skemmtigarðsins aðeins með óljósum hætti;
það er sem tanngarður parísarhjólsins sem skagar upp í himininn skyggi á
fólkið sem fikrar sig eftir gangplönkum og stígum, en athygli áhorfanda
beinist fljótlega að söguhetju myndarinnar, rithöfundinum unga (William
Dieterle), en þó er ekki laust við að hikandi framganga hans í óreiðukenndu
umhverfinu gefi til kynna að hann sé ringlaður og tvístígandi um áfangastað
sinn. Í ljós kemur að rithöfundurinn er í atvinnuleit, því nærmynd sýnir
hann halda á úrklippu úr dagblaði þar sem stendur: „Hugmyndaríkur rit-
höfundur óskast til að sinna kynningarvinnu fyrir vaxmyndasafn.“ Hann
kemst þó á leiðarenda en staldrar við undir niðurníddu skilti vaxmynda-
safnsins, líkt og atvinnutilboðið sé hugsanlega ekki af fínustu gerð, en tekur
svo á sig rögg og stígur inn fyrir. Þar er hann staddur í rými sem virðist bæði
umfangsmeira en starfsemin gefur til kynna, og í raun var vandséð að hjall-
urinn sem var í mynd skömmu fyrr rúmaði jafn tilkomumikið sýningarrými.
Misræmið sem þarna skapast kann að vera fyrsta vísbendingin um að mörk
tíma og rúms verði þanin í söguframvindunni sem við tekur.
Hokinn öldungur (John Gottowt) tekur á móti skáldinu og spyr vafn-
ingalaust hvort það geti „skrifað spennandi sögur“ um vaxmyndirnar.
Skáldið flýtir sér að fullvissa eigandann um að hann geti sannarlega skrifað
krassandi sögur um þessa sögufrægu einstaklinga og er honum því næst
beint að vinnustöð sinni, viðarskrifborði í einu horni safnsins þar sem
hann situr andspænis vaxmyndauppstillingunni. Tvö atriði virðast þegar
í stað fanga athygli hans, það að kalífinn er einhentur (eigandinn færir
honum höndina; hún hafði dottið af segir hann) og heimasætan, dóttir
eigandans Eva (Olga Belajeff), sem heilsar honum með ljómandi brosi. Sú
erótíska spenna sem myndast þeirra á milli litar „smásögurnar“ þrjár sem
fylgja í kjölfarið því í þeim öllum koma þau við sögu í yfirfærðum skiln-
ingi, það er að segja, Dieterle og Belajeff fara með lykilhlutverk í öllum
sögunum og þá jafnan í hlutverki elskenda. Þannig spegla sögurnar þrjár
atburðarásina í rammasögunni en útfæra örlög og samskipti elskendanna
á ólíka vegu sem skapar ákveðna óvissu um úrlausn rammafrásagnarinnar,
sem og merkingarlega fjölbreytni innan verksins í heild.
BjöRn ÞÓR vilHjÁlMsson