Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Síða 169
169
Í fyrstu sögunni, „Hvernig kalífinn missti handlegginn“, birtast Dieterle
og Belajeff t.a.m. sem óhamingjusöm hjón í Bagdad til forna. Dieterle
leikur bakarann Assad sem stendur frammi fyrir þeim vanda að einvald-
urinn Harun al-Rashid girnist eiginkonu hans, Zöru, sem reynist ekki
fullkomlega staðföst í ást sinni á bakaranum. Þannig verður kalífanum vel
ágengt í flekunartilraunum sínum en bakarinn ákveður að ræna sögufræg-
um hring kalífans, sem gat sögum samkvæmt látið óskir rætast, til að sanna
karlmennsku sína. Ránstilraunin fer út um þúfur en í öllu handapatinu er
höndin höggvin af kalífanum. Hér er athyglisvert að gaumgæfa með hvaða
hætti sagan er kynnt innan rammafrásagnarinnar í vaxmyndasafninu, en
það er gert með markvissri myndfléttu sem hefur það að markmiði að
riðla tímaskynjun áhorfenda og gera sjálft vaxmyndasafnið að dularfullu,
tímalausu rými.
Fyrst sjáum við miðmynd af skrifborði skáldsins þar sem skáldið sjálft
situr og bíður eftir innblæstri, hægra megin við hann stendur Eva en
vinstra megin umsjónarmaður safnsins. Sá síðastnefndi dregur sig smám
saman í hlé, tekur skref aftur á bak og hverfur í bakgrunninn. Næst kemur
nærmynd af blaði sem skáldið hefur eingöngu skrifað nafn kalífans á, en á
eftir fylgir tvískot (e. two-shot) af skáldinu og Evu og í miðnærmynd, og að
því búnu er vikið aftur að blaðinu sem á er rituð lýsing á ofríki og kynferð-
islegu hamsleysi Haruns. Því næst sjáum við tvískot af þeim báðum, aftur í
miðnærmynd, þar sem Eva hallar sér yfir öxl skáldsins, með kankvíst bros
á vör, og hvetur sagnasmiðinn til dáða. Þvínæst tekur við mynd af blaðinu
sem nú birtir textalýsingu á fegurð Zöru, eiginkonu bakarans, strax á eftir
birtist önnur miðnærmynd af Evu sem blandast annari nærmynd með
myndlausn (e. dissolve), núna af Evu í gervi Zöru (sem eins og áður segir er
leikin af sömu leikkonu og leikur Evu). Sams konar ferli á sér stað þegar
skáldið færist með myndlausn yfir í hlutverk bakarans Assad. Að lokum
sjáum við miðnærmynd þar sem Zara horfir með eggjandi hætti til hægri
og á eitthvað sem er utan ramma, þá er klippt í miðnærmynd af Assad sem
nú horfir til vinstri, einnig með skýrri kynferðislegri undiröldu, á eitthvað
sem er utan ramma. Samkvæmt hefðbundinni merkingu augnlínuskota
(e. eyeline match) eru þau þarna að gefa hvort öðru auga. Með þessum hætti
losar upphafsatriðið vaxmyndasafnið með mjög markvissum hætti undan
hefðbundnum staðbindingar- og tímalögmálum, eða, svo vitnað sé til orða
Baudrillards hér að framan, safnið sjálft kemur í stað tímans.
Raunar myndar notkunin á myndlausn í þessu atriði og samslátturinn
SöGUR ÚR VAXMYNDASAFNINU