Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Qupperneq 172
172
daglas. Þegar glasið uppgötvast er sú ályktun dregin að eitrað hafi verið
fyrir Ívan og af örvæntingu reynir hann að stjórna framrás „dauðans“ með
því að snúa stundaglasinu í sífellu við, rétt áður en það tæmist, og víkur
ekki frá því það sem hann á eftir ólifað.
Lokaatriðið sýnir Ívan því snúa glasinu við þegar kornin eru að tæmast,
í glaðhlakkalegri geðveiki manns sem þar með telur sig hafa öðlast eilíft
líf. Þematísk áhersla myndarinnar á dauðaótta Ívans og tilraun hans undir
lokin til að hefta framvindu tímans kallast á við virkni hins smurða líks, og
framsetningarlista almennt, í fyrirbærafræðilegri söguskýringu Bazin. Búið
er að varpa ógn forgengileikans yfir á hlut sem maðurinn getur stjórnað
í von um að ná tökum á dauðanum, og sú ímynd, þ.e. ímynd hinnar lif-
andi vaxmyndar Ívans grimma sem tryggt hefur sér eilíft líf í gegnum
kvikmynda/eiturgerðartæknina, skírskotar á margbrotinn hátt til þeirra
varðveisluhugmynda sem tengdar eru við kvikmyndina.
Þriðja sagan, sú sem fjallar um Kobba kviðristi, stendur næst sjálfri
draumvinnslunni og segja má að hún kanni dauðaóttann í draumvitund
„sögumannsins“ sjálfs, enda vindur henni fram í draumi. Skáldið unga,
örþreytt eftir að hafa komið fyrstu tveimur sögunum á blað, hefur sofn-
að yfir þeirri þriðju. Söguþráðurinn er einfaldur í þessu tilviki, skáldið
dreymir sjálft sig á ferð um skemmtigarðinn með sinni heittelskuðu, dótt-
ur umsjónarmannsins. Dularfullur skuggi eltir þau, einhver sem hyggst
myrða stúlkuna, en hnífur ódæðismannsins hæfir sögumann í staðinn.
Hér er einkum forvitnilegt hvernig unnið er með rými og myndflötinn
og þá verður einnig að taka tillit til þess að Kobbi kviðristir er óræðust
af sögulegu persónunum sem eru til sýnis, að því leyti að efnisleg birt-
ingarmynd hans er óþekkt og henni er viðhaldið af ímyndunaraflinu –
sögulegt minni um Kobba kviðristi er mótað í gegnum orðræður, texta og
ekki síst kvikmyndalegar framsetningar. Óáþreifanleiki Kobba samræmist
frásagnaraðferðinni í draumasögunni, en þar leysast upp öll lögmál tíma
og rúms. Myndblöndun (e. superimposition) er beitt til að skapa nokkurs
konar alnánd morðingjans og dauðaógnarinnar, hann hverfur og birtist
aftur annars staðar, er á þremur stöðum á sama tíma, svífur um en er því
næst kominn upp að parinu með hnífinn á lofti. Þá er parið sjálft óefn-
islegt eins og ef til vill hæfir draumaverum, þau ganga í gegnum hluti
og húsgögn, og skemmtigarðurinn sjálfur verður í krafti expressjónískrar
ofgnóttar að hálfgerðri hryllingsveröld þar sem kynferðisleg þrá skáldsins
blandast óhugnaði, líkt og Eros og Thanatos eigist við upp á líf og dauða.
BjöRn ÞÓR vilHjÁlMsson