Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Blaðsíða 174
174
smæstu smáatriðum og ef vel á að vera er hún mótuð beint eftir frum-
myndinni. Þannig býr vaxmyndin yfir tilvistarlegri beintengingu vís-
isins við fyrirmynd sína. Bókmennta- og menningarfræðingurinn Marina
Warner hefur fjallað um vaxmyndina á hátt sem svipar til umræðu Bazin
og Burch um kvikmyndina. Warner telur vaxmyndina hafa yfirbragð lífs
og dauða í jöfnum hlutföllum: „Í list líksmurningameistarans og eftirlík-
ingarlist Tussaud er feigðina að finna en líka loforðið um eilíft líf“.53 Líkt
og Bazin telur Warner að þetta loforð búi í varðveislumætti nákvæmrar
eftirlíkingar og fjallar hún í þessu samhengi um innsiglið í tvöfaldri merk-
ingu. Annars vegar táknar innsiglið ákveðið sannferði, þ.e. tengsl við sann-
anlegan uppruna, og hefur gert síðan póstsamgöngur urðu til í einhverri
mynd. Hins vegar innsiglar vaxið í öðrum skilningi, er það einangrar hluti
fyrir súrefni og niðurrifi tímans. Það varðveitir á máta sem minnir á líksm-
urningu. Þessir merkingaraukar eru allir kallaðir fram í kvikmyndalegu
rými vaxmyndasafnsins og valda jafnvel ankannalegum áhrifum í þeim
skilningi að vaxmyndirnar eru að sjálfsögðu ekki eftirmyndir sögulegra
persóna heldur blasa við áhorfendum leikararnir sjálfir, Emil Jannings,
Werner Krauss og Conrad Veidt. Þótt sama eigi við upp að ákveðnu marki
um allar kvikmyndir þar sem leikarar bregða sér í hlutverk sögufrægra ein-
staklinga þjóna vaxmyndirnar því hlutverki hér að draga enn skýrar fram
hvernig kvikmyndin getur í raun „brætt saman“, líkt og í vaxvinnslu, ólík
tímaskeið, stjörnuímyndir, leiknar persónur, raunverulega leikara, hug-
myndirnar sem við gerum okkur um sögulegan tíma og sögulegt minni, og
smíðað úr þessu hráefni listaverk.
En að sama skapi gerir Vaxmyndasýningin að umfjöllunarefni takmörk
sjálfs vísissporsins, takmörk sem Siegfried Kracauer lýsir eftirminnilega
í ritgerð sinni um ljósmyndir þegar hann segir, „Einstaklingurinn varð-
veitir minningar vegna þess að þær búa yfir persónulegu gildi fyrir hann.
Þannig eru þær skipulagðar eftir ákveðnu lögmáli sem er í grunninn ólíkt
skipulagi ljósmyndarinnar. Ljósmyndin varðveitir rýmislega (eða tíma-
lega) samfellu; minnið varðveitir minningar eftir mikilvægi þeirra.“54
Í Vaxmyndasýningunni virðist einmitt hin „tæknilega“ eftirlíking ein og sér
53 Marina Warner, „Waxworks and Wonderlands“, Visual Display: Culture Beyond
Appearences, ritstj. Lynne Cooke og Peter Wollen, New York: The New Press,
1995, bls. 186.
54 Siegfried Kracauer, „Photography“, The Mass Ornament: Weimar Essays, þýð. og
ritstj. Thomas Y. Levin, Cambridge og London: Harvard University Press, 1995,
bls. 47–65, hér bls. 50.
BjöRn ÞÓR vilHjÁlMsson