Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Side 185
185
armiðum (fjármálamörkuðum, viðskiptum, fjölþjóðlegum fyrirtækjum),
upplýsingatækni (sjónvarpi, tölvum, netinu) og pólitík (dvínandi mikilvægi
þjóðríkisins, borgaralegu samfélagi og fjölgun frjálsra félagasamtaka). Við
höfum ekki öðlast nægilegan skilning á áhrifum hnattvæðingar á menn-
ingu og sögu nútímans, oft af þeirri einföldu ástæðu að litið er svo á að
‚alvöru‘ eða ‚upprunaleg‘ menning sé það sem tiltekið samfélag eigi sam-
eiginlegt og hún sé þess vegna staðbundin, en efnahagslegar og tæknilegar
framfarir eru taldar vera algildar og hnattrænar. Hinni staðbundnu og þar
með upprunalegu og hefðbundnu menningu er stillt upp sem andstæðu hins
hnattræna sem stendur fyrir framþróun, eitthvað framandi, valdaásælni og
upplausn. En þessi andstæðutvennd, hið hnattræna og hið staðbundna, er
jafn mikil einföldun og hugmyndin um hnattræna menningu sem þessari
andstæðutvennd er stefnt gegn. Hún er mun takmarkaðri en hinn þver-
þjóðlegi skilningur á nútímalegri menningarstarfsemi sem sumir mód-
ernistanna orðuðu sjálfir. Í stað þess að veita nýtt sjónarhorn á menningu
samtímans er tvenndin einungis bergmál af öðrum slíkum andstæðupörum
sem félagsfræðin beitti áður fyrr á nútímann (hefð og nútími, Gemeinschaft
og Gesellschaft20 o.s.frv.) án þess að nokkur grein sé gerð fyrir því hvernig
nútímavæðing og hnattvæðing síðustu aldar hafa gert slík skýringarlíkön
frá nítjándu öld úrelt.
ég held því fram að rannsóknir á módernisma í vestrænum háskólum
og listasöfnum snúist enn um hið staðbundna. Þrátt fyrir að alþjóðahyggju
módernismans sé fagnað raða háskólarnir bókmenntum niður í deildir
eftir þjóðerni og á milli þeirra ríkir gamalkunnug valdatogstreita. Þetta
kemur í veg fyrir að við berum kennsl á það sem kalla mætti módern-
isma vítt og breitt, það er að segja hin þverþjóðlegu menningarform sem
verða til við samslátt hins nútímalega og hins upprunalega í nýlendum og
eftirnýlendum utan hins vestræna heims.21 Hefðarveldið hefur vissulega
20 Þýsku hugtökin mætti þýða með orðunum ‚samfélagsrekstur‘ og ‚einkarekstur‘.
[Athugas. þýð.]
21 Orðalagið ‚módernismi vítt og breitt‘ er komið frá Arjun Appadurai. Sjá Arjun
Appadurai, Modernity at Large. Cultural Dimensions of Globalization, Minneapolis:
Minnesota University Press, 1996. Einnig mætti tala um mögulega eða aðra mód-
ernisma eða margfalda módernisma (e. multiple modernisms). Fyrrnefnda orðalagið
felur í sér eða ýjar að minnsta kosti að stigskiptingu þar sem einhverjum alvöru eða
upphaflegum módernisma er skipað efst. [Huyssen segir hugtakið ekki fela í sér
stigskiptingu í grein sinni „Modernism at Large“, bls. 59. Athugas. þýð.] Og orðið
‚margfaldir‘ finnst mér einfaldlega gefa í skyn of mikinn fjölda. Í þessar tillögur
vantar líka vísunina í landfræði módernismans sem orðalagið ‚módernismi vítt og
LANDFRæðI MÓDERNISMANS Í HNATTRæNUM HEIMI