Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Side 202
202
við collage eða samklipp.3 Ástæðan fyrir því að ráðist var í þýðingu á greininni
sem hér birtist, en ekki nýlegri skrifum Friedmans, er sú að í henni sýnir hún á
aðgengilegan hátt hvernig beita má menningarlegri hliðskipun eða samklippi
sem greiningaraðferð á módernísk verk.
Með menningarlegri hliðskipun á Friedman við að textar frá mismunandi
tímum og stöðum séu lesnir saman. Í stað þess að lesa höfund eða verk eitt og
sér og eingöngu í samhengi við þá þjóðlegu hefð sem það er sprottið úr, þá
er samspil þess við verk – eitt eða fleiri – á öðru menningarsvæði eða menn-
ingarsvæðum skoðað með það í huga að framkalla margvísleg sérkenni þeirra
allra, mismunandi hefðir á bak við þau og áhrif staðanna sem þau tilheyra á
eðli þeirra og inntak. Hugtakið ‚hliðskipun‘ sækir Friedman í skáldskaparfræði
sem oft er tengd módernisma og felur í sér róttækt rof, til dæmis á milli mál-
eininga eða frásagnareininga, og ólínulega niðurröðun þeirra sem ekki tekur
tillit til stigveldis. Tengsl á milli eininga verða þannig óljós og kalla á ímyndun
lesandans sem leitar að samræmi á milli þess sem hefur verið aðskilið og virðist
brotakennt. Menningarleg hliðskipun er því samanburðaraðferð sem grennsl-
ast ekki aðeins fyrir um sameiginleg einkenni og það sem skilur í sundur með
skyldum hlutum heldur gengur út frá því að á hverjum stað þróist hlutirnir
með sínum hætti. Hún leggur einnig áherslu á að áhrif á milli menningar-
svæða geta verið gagnkvæm en ekki fyrst og fremst áhrif (vestrænu) miðjunnar
á (óvestræna) jaðarinn.4
Mikilvægt er að hafa í huga að staðarmódernismi er ekki staðbundinn mód-
ernismi, því að hann felur ekki aðeins í sér áherslu á staðinn sem um ræðir –
staðhætti þar eða staðfræði – heldur einnig hið stóra landfræðilega samhengi
þess staðar. Staðarmódernismi inniheldur bæði hið þjóðlega og hið alþjóðlega
eða kannski frekar hið þverþjóðlega (e. transnational) – síðarnefnda hugtakið
felur ekki í sér eininguna eða einsleitnina sem hið fyrrnefnda gefur til kynna.5
Hann fjallar ekki síst um það hvernig módernisminn er saminn að staðháttum
á hverju menningarsvæði – og þar með hvernig menning einstakra svæða hefur
áhrif á hugmyndir og fagurfræði módernismans eða mótar sinn eigin.
Þröstur Helgason
3 Sjá Susan Stanford Friedman, „Planetarity: Musing Modernist Studies“, Mod-
ernism/modernity 3/2010, bls. 471–499 og „World Modernisms, World Litera-
ture, and Comparativity“, The Oxford Handbook of Global Modernisms, ritstj. Mark
Wollager og Matt Eatough, Oxford og New York: Oxford University Press, 2012,
bls. 499–525. Í þessum greinum hefur Friedman lagt upp fjórar aðferðir til þess
að rannsaka landfræði módernismans: endurskoðun (e. re-vision), endurheimt (e.
recovery), dreifingu (e. circulation) og áðurnefnt samklipp (e. collage).
4 Sjá Susan Stanford Friedman, „Paranoia, Pollution, and Sexuality: Affiliations
beween E. M. Forster’s A Passage to India and Arundhati Roy’s The God of Small
Things“, bls. 245; einnig í greininni sem prentuð er hér á eftir.
5 Sjá frekari umræðu um hugtakið „þverþjóðlegur“ í ljósi módernisma hjá Jahan
Ramazani, A Transnational Poetics, Chicago og London: The University of Chi-
cago Press, 2009 og Jessicu Berman, Modernist Commitments. Ethics, Politics, and
Transnational Modernism, einkum bls. 9–11 og 28–33.
susan stanfoRd fRiEdMan