Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Side 217
217
Homi Bhabha hefur kennt við „heimsvaldastefnubundna eftirhermu-
list“.35 Þessi eftirhermulist – þessi eftirlíking-með-tilbrigðum – afmiðjar
fyrri textann með því að vefengja þann náttúrulega blæ sem forræði hans
tekur óhjákvæmilega á sig. Hann knýr líka á um svör við andstæðupör-
um heimsveldisdrottnunar sem texti Conrads í senn felur í sér og gref-
ur undan: siðmenntun/villimennska; nútími/hefð; heimsveldi/nýlenda;
sjálfsíhygli/einfeldni. Fimmtíu árum eftir að Indland öðlaðist sjálfstæði frá
Bretlandi færir Arundhati Roy í frásögn margfalda för til og frá Indlandi
í bók sinni The God of Small Things, sögu sem endurskrifar bæði Heart of
Darkness og A Passage to India – með tilbrigðum. Sögutíminn er þrettán
daga tímabil árið 1969 þar sem sálarundir opnast og blandast endurlits-
punkti sem er dagur einn árið 1992. Þannig nær tímarammi sögunnar
yfir tímabil heimsvaldastefnunnar, eftirlendutímann og póstmóderníska
tímann á gervallri tuttugustu öld. Atburðunum 1969 er hrundið af stað
með komu lítillar stúlku, Sophie Mol, sem kemur frá Bretlandi í fylgd
með enskri móður sinni til Kerala á suðvesturströnd Indlands í því skyni
að heimsækja indverskan föður sinn, Chacko, í fyrsta sinn. Hún ferst svo
í viðsjárverðri á. Þessi ferð móður og dóttur bergmálar ferðalag Adelu
Quested og tilvonandi tengdamóður hennar í A Passage to India.36 Hún
snýr einnig við ferð Chacko, til London og Oxford þar sem hann, sonur
Englandsaðdáanda, stundaði nám. Rétt eins og í skáldsögu Salih, sem
kann að hafa þekkt til, endurskrifar Roy eldri frásagnir Breta af ferða-
lögum í nýlendurnar til þess að kanna ranghverfu ferðalagsins, frá miðju
eftirlendunnar til jaðars heimsveldisins.
Velgengni Chackos í Oxbridge og hjónaband við hvíta konu gerðu
hann nánast að Englendingi og leiddu til þess að fjölskylda hans sætti sig
við það hefðarrof hans að velja sér eigin maka, konu utan hans kristna
Nasrani-söfnuðar og hástéttarstöðu. Þegar Margaret skilur við hann áður
en barnið þeirra fæðist snýr Chacko aftur heim, bitur maður, en þó þess
umkominn að taka sér stöðu sem höfuð Ipe-fjölskyldunnar og stjórnandi
fyrirtækis móður sinnar, Paradise Pickles and Preserves Factory, og einn-
ig í aðstöðu til að svala kynferðislegum þörfum sínum með því að láta
færa lágstéttarkonur með leynd í húsið sér til lystisemda. Hinn fordekraði
sonur, Chacko, á í ástar-haturs-sambandi við allt sem enskt er og telur að
breska heimsveldið á Indlandi haldi enn aftur af möguleikum Indverja til
35 Homi K. Bhabha, The Location of Culture, London: Routledge, 1994, bls. 85–92.
36 E. M. Forster, A Passage to India, New York: Harcourt Brace Jovanovich, 1924.
MENNINGARLEG HLIðSKIPUN OG ÞVERÞJÓðLEGT LESLANDSLAG