Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Page 221
221
á texta. Þær setja í brennidepil mótsagnir, margræðni, flæði og óvissu sem
fylgja í kjölfar fjölstöðunnar. Til nánari skýringar vil ég kafa dýpra ofan í
slíkar sveigjur í menningarlegum frásögnum um kyn og þjóðir í The Voyage
Out og Season of Migration to the North.
Í The Voyage Out ræðst Woolf gegn ofríki hjónabandssöguþráða með því
að smíða ferðafrásögn, sem bergmálar heimsveldisstefnuþemun úr Heart of
Darkness og heila grein ferðsagna þar sem förin að heiman er vendipunktur
í persónuleikaþróun söguhetjunnar. Ómissandi þáttur þroskasögunnar (þ.
Bildungsroman) er förin að heiman og í samhengi við vestrænar ferðabók-
menntir kvikna gjarnan spursmál um þjóðernisvitund þegar söguhetjan
fer yfir landamæri og inn á átakasvæði þvermenningarlegra samfunda, oft
við óvestrænan annan. The Voyage Out er engin undantekning. En Woolf
sveigir undan hinum hefðbundnari nýlendusöguþráðum, einkum afbrigði
Conrads. Kynjaþemun eru ágeng á söguþráðinn og mótandi afl í umritun
hennar.
Fyrsta vísbending um sveigju frá nýlenduferðasögu Conrads er sú lýs-
andi ákvörðun Woolf að hafa meginsögusvið skáldsögunnar, áfangastað
Rachel, ríki í Rómönsku-Ameríku sem áður laut Spáni, ekki Bretlandi.
Miðað við mikilvægi Indlands í stórfjölskyldu Woolf og þær fjölmörgu
sögur sem hún hlýtur að hafa heyrt þaðan – úr móðurleggnum og síðar í
gegnum Leonard Woolf – er athyglisvert að hún láti fyrstu skáldsögu sína
gerast í þeirri útlendu heimsálfu þar sem minnstra breskra áhrifa gætir,
í uppdiktaðri borg sem sögumaður útlistar að hafi aðeins lotið hinum
„harðgerðu“ Bretum um skamma hríð eftir að þeir sigruðu hina „upp-
belgdu“ og lastafullu Spánverja fyrir þrjú hundruð árum. Hér mistókst
Breska heimsveldinu að ná fótfestu fyrir sakir skorts á ráðagerðum og því
var Santa Marina yfirtekið af Portúgölum, Spánverjum og indjánum sem
giftust innbyrðis svo úr varð rómanskt kynblendingskyn.39 Hingað sneru
Englendingar ekki aftur fyrr en tíu árum fyrir komu Rachel og þá ekki
sem nýlenduherrar heldur túristar og eftirlaunaþegar, „áhugalausir“ (e.
disinterested) um eldri svið Evrópu, ákafir að upplifa „nýja heiminn“ og
á stundum braska með upprunaleika frumbyggja í formi glingurs þegar
heim er komið. Þannig er sögunni af sigrum Evrópubúa í Ameríku snúið
á hvolf í háðsádeilu.40 Sögusvið skáldsögunnar og félagsleg staða pers-
óna hennar eiga fleira sammerkt með þeim söguhetjum Forsters sem eru
39 Virginia Woolf, The Voyage Out, New York: Harcourt Brace Jovanovich, 1948, bls.
88–89.
40 Sama heimild, bls. 90–91.
MENNINGARLEG HLIðSKIPUN OG ÞVERÞJÓðLEGT LESLANDSLAG