Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2014, Blaðsíða 33
32
skráð tilvik), dreifingu skráðra sjálfsvíga innan tímabilsins, kynjaskiptingu
sjálfsvegenda, greftrun þeirra o.fl. Einnig var reynt að greina hvaða atriði
annálaritarar lögðu helst rækt við að skrá.
Rannsóknarspurningin sem lagt var upp með er eftirfarandi: Hvers vegna
voru frásagnir af sjálfsvígum skráðar í annála og hvernig voru þær skráðar?
Ástæðurnar fyrir vali á annálunum sem heimildaefni eru í meginatrið-
um tvær. Annars vegar er það að kanna hvaða vitnisburð samkynja heim-
ildir (annálarnir) veita um sjálfsvíg á ákveðnu tímabili (17. og 18. öld).
Rannsóknin beinist því meira að annálunum sem heimildum og vitnisburði
um hugarfar fremur en að rauntíðni og ástæðum sjálfsvíga á tímabilinu.
Þetta ber að hafa hugfast t.d. varðandi framsetningu tölulegra upplýsinga
(nánar verður fjallað um annálana sem heimildir í upphafi II. hluta). Hin
meginástæðan fyrir heimildavalinu er að þessi grein er afurð rannsóknar
sem unnin var innan þröngs tímaramma sem leiddi til skarpari afmörkunar
en ella.
Það væri sannarlega áhugavert að gera viðameiri rannsókn á sjálfs-
vígum og viðhorfum til þeirra á 17. og 18. öld með því að kanna sam-
tímaheimildir frá þessum tíma með yfirgripsmeiri hætti en hér er gert.
Alþingisbækur og dómsskjöl eru t.a.m. heimildir sem líklegt má telja að
geymi vitnisburði um sjálfsvíg. Þess má þó geta að prestastefnudómar frá
17. og 18. öld sem gefnir voru út árin 2005 og 2006 geyma aðeins eina
frásögn af sjálfsvígi.1
Árið 1996 kom út greinasafnið Eitt sinn skal hver deyja, en megin-
markmið þess var að draga saman í eitt rit fjölbreyttar íslenskar rann-
sóknir á dauðanum. Einn þekktasti rannsakandi á dauðahugtakinu í sögu
Vesturlanda var franski sagnfræðingurinn Philippe Ariès (1914–1984). Í
grein í áðurnefndu riti skýrir Sigurður Gylfi Magnússon sagnfræðing-
ur megininntakið í kenningum Ariès um dauðahugtakið og þróun þess
frá miðöldum og fram á 20. öld. Útlegging Sigurðar Gylfa á kenningum
Ariès er skýrt framsett og í góðu samræmi við frumtextann. Því kýs ég að
styðjast við hana hér en vísa neðanmáls til viðeigandi síðna í bók Ariès.
1 Í nafni heilagrar guðdómsins þrenningar. Prestastefnudómar Jóns biskups Vídalíns árin
1698–1720, Már Jónsson og Skúli S. Ólafsson tóku saman, Sýnisbók íslenskrar
alþýðumenningar 12, ritstjórar: Davíð Ólafsson, Már Jónsson og Sigurður Gylfi
Magnússon, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2006; Guðs dýrð og sálnanna velferð. Presta-
stefnudómar Brynjólfs biskups Sveinssonar 1639–1674, Már Jónsson tók saman, Sýn-
isbók íslenskrar alþýðumenningar 10, ritstjórar: Davíð Ólafsson, Már Jónsson og
Sigurður Gylfi Magnússon, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2005 (sjá bls. 346–347).
HRAfnkell láRuSSon