Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2014, Síða 95
94
Tilgangurinn með myndinni er því ekki síst sá að tengja Bath á áþreif-
anlegri hátt við ímynd skáldkonunnar, en helsti vandi Jane Austen Centre
í Bath hefur löngum verið hversu illa Austen líkaði veran þar í bæ og skrif-
aði hún nánast ekkert árin sín þar. Melissa segir: „Umfram allt vildi ég ná
fram líflegum og gamansömum persónuleika Jane, sem maður fær tilfinn-
ingu fyrir ef dæma á eftir skáldsögum hennar og ummælum þeirra sem
þekktu hana.“26 Melissa Dring lýsir mynd sinni á eftirfarandi hátt: „Svipur
hennar er óræður og sýnir að hún er að hugsa eitthvað fyndið með sjálfri
sér. […] Hún situr hreyfingarlaus en undir húfunni krauma hugmyndirnar,
þrátt fyrir að svipur hennar sé einnig friðsæll og dreymandi. Jane var ekki
hávær og stilla ríkir yfir þessari litlu mynd. Myndin býr því yfir sams konar
styrk og hún hafði, er í senn hárfín, óræð og flókin.“27
Spyrja má hversu vel heppnuð þessi andlitsmynd af Austen sé. Í fyrsta lagi
lítur hún vart út fyrir að vera á þrítugsaldri, heldur nokkuð eldri. Jafnframt
er hætta á því að tilraunir til að fanga léttan og kómískan skáldskaparstíl
Austen snúi andliti hennar upp í skopstælingu. Ævistarf rithöfundar býr
sjaldnast í svip hans. Þó að hér sé leitað nýrra leiða til þess að endurheimta
,sanna‘ ímynd Austen festir málverk Dring klisjurnar um skáldkonuna enn-
frekar í sessi, þótt hér sé fremur horft til kómíska höfundarins en höfundar
ástarsagnanna sem útgáfufyrirtækið Wordsworth reyndi að fanga.
Álit manna á Austen sem margar myndirnar endurspegla er að hún sé
ýmist falleg, kjánaleg, atvinnuhöfundur eða ófríð. Reynt hefur verið að
skilgreina Jane Austen út frá vel afmörkuðum forsendum allar götur síðan
bræður hennar gerðu úr henni kristilegan dýrling líkt og rætt verður frek-
ar hér á eftir. Margir ævisagnahöfundar, fræðimenn og gagnrýnendur vilja
á sama hátt festa niður mynd hennar. Skissa Cassöndru segir okkur sam-
kvæmt umræðunni að hún hafi verið ófullnægð piparmey á meðan teikn-
ing Byrne gefur til kynna að hún hafi verið metnaðarfullur atvinnumaður
sem lifði fyrir listina. Mynd Dring horfir til kómíska höfundarins þar sem
Austen brosir út í annað.
Útleggingar á myndum af Austen eru því ekki bundnar við líkamann,
heldur taka þær á sig hugmyndafræðilega og kynjafræðilega merkingar-
auka. Ímyndirnar sem greina má úr myndunum af Austen má síðan lesa í
samhengi við almennar einfaldanir á henni sem manneskju og rithöfundi
sem afmarkast við eitthvað ákveðið. Svipur sem hugsanlega sýnir hörku,
26 „A new portrait of Jane Austen“, Jane Austen’s Regency World, 1/2003, bls. 5–9, hér
bls. 6.
27 „A new portrait of Jane Austen“, Jane Austen’s Regency World, bls. 9.
AldA BJöRk vAldimARSdóttiR