Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2014, Blaðsíða 162
161
(8) Sagnir sem tákna að koma einhverju á (snögga) hreyfingu taka
t.d. yfirleitt með sér andlag í þágufalli (sem þá hefur merkingarhlut-
verkið þema).
Hér má t.d. nefna sagnir eins og ryðja, ýta og þoka, kasta, fleygja, henda,
sparka o.s.frv. (þessar sagnir ganga reyndar allar með atviksorðinu burt, eins
og bola). Ef kennarar hefðu nú orðið við þeirri hvatningu Helga Pjeturss
að reyna að koma í veg fyrir að nemendur notuðu þágufall með bola burt
tel ég að það hefði ekki skilað neinum árangri af því að notkun þágufalls
með bola burt er hluti af almennari reglu í málkunnáttu þeirra sem í hlut
eiga en ekki bara eitthvað sem varðar þessa einu sögn. Sú niðurstaða væri
þá í samræmi við staðhæfinguna í (7a) hér á undan: Það er tilgangslaust að
gera athugasemdir við einstök atriði (hér: fallstjórn sagnarinnar bola burt)
sem styðjast við almenna reglu í máli þess sem í hlut á (hér: regla um fall-
stjórn sagna af tilteknum merkingarflokki).
4.4 Leiðréttingar sem geta gert illt verra
En eitt er það að athugasemdir við einstök atriði af þessu tagi skili engum
árangri. Annað er að halda því fram að þær geti verið skaðlegar, eins og
gert er í (7b) hér á undan. ég skal nú nefna nokkur dæmi sem ég tel ótví-
rætt styðja þá staðhæfingu.
4.4.1 Merkingarhlutverk, frumlagsfall og þágufallssýki
Í setningafræði er alsiða nú á tímum að gera greinarmun á setningar-
hlutverki (e. grammatical function) og merkingarhlutverki (e. semantic
role).18 Setningarhlutverk (eða setningarleg hlutverk) eru þá m.a. frumlag
og andlag en þekktasta merkingarhlutverkið er líklega gerandi. Frumlag
hefur margvísleg setningarleg einkenni19 en merkingarhlutverkið gerandi
má skilgreina svo (sjá sama rit bls. 320):
(9) Gerandi (e. agent) er sá sem vinnur eitthvert verk, veldur einhverri
breytingu o.s.frv. og gerir það viljandi.
líka Joan Maling, „Það rignir þágufalli á Íslandi. Verbs with Dative objects in
Icelandic“, Íslenskt mál 24, 2002, bls. 31–105.
18 Höskuldur Þráinsson, Setningar, 7. kafli; Jóhannes Gísli Jónsson, „Merkingarhlut-
verk“.
19 Höskuldur Þráinsson, sama rit, bls. 269. Þar eru talin tólf atriði sem hafa verið talin
einkenna frumlag í íslensku.
MÁLVERnD, MÁLTAKA, MÁLEYRA – oG PISA-KönnUnIn