Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2014, Blaðsíða 199
198
lega. Að sama skapi afhjúpa þau ákveðna þjóðernishyggju og þrá þjóðar
eftir að verða fullgildur meðlimur í „samfélagi þjóðanna“ sem var svo ein-
kennandi fyrir tíðaranda uppgangsáranna fram að hruni. Stofnun frið-
argæslunnar var ein leið stjórnvalda til að nálgast það takmark. Þátttaka í
friðargæsluaðgerðum á sinn þátt í að móta sjálfsmynd ríkja og má þar til
dæmis benda á Kanada þar sem friðargæsla gegnir mikilvægu hlutverki í
pólitískri ímynd landsins á alþjóðavísu sem og í þjóðarsjálfsmyndinni.83
Joseph Jockel segir „góða“ ímynd landsins á alþjóðavísu hafa átt sinn þátt
í að tryggja Kanada sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna árið 1998.84 Í
þessu samhengi má benda á að tilurð og vöxtur Íslensku friðargæslunnar
og undirbúningur undir framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóð-
anna 2009-2010 áttu sér stað á sama tíma, innan sama pólitíska samhengis
og rýmis.85 Dæmi um orðræðu sem þar ríkti mátti meðal annars sjá í skrif-
um Björns Bjarnasonar í Morgunblaðið árið 2002 er hann sagði að mark-
mið íslenska ríkisins væri „að komast í ólympíuliðið á vettvangi stjórn-
mála með því að eignast fulltrúa í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna […]
Lengra ná þjóðir ekki til fjölþjóðlegra áhrifa“.86 Að hans mati var ein leið
að því markmiði að auka starfsemi íslensku utanríkisþjónustunnar innan
hinna ýmsu stofnana Sameinuðu þjóðanna. Þáverandi utanríkisráðherra,
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, benti jafnframt á að íslenska ríkisstjórnin
vildi leggja sitt af mörkum til að Ísland yrði það land sem styrkti stofnanir
Sameinuðu þjóðanna eins og UnIFEM og UnICEF hvað mest.87 Það var
í raun hluti af þeim breytingum á utanríkisstefnu landsins sem áttu sér stað
á þessum árum þar sem áherslan var á að Ísland væri hluti af alþjóðasam-
félaginu. Þó svo að umsókn um sæti í öryggisráðinu og stofnun og rekstur
Íslensku friðargæslunnar hafi ekki endilega verið skipulagt í samhengi þá
fór þetta tvennt þó ágætlega saman þar sem þátttaka í alþjóðlegum frið-
83 Joseph T. Jockel, Canada and international peacekeeping, Toronto: Canadian Institute
of Strategic Studies; Sandra Whitworth, Men, militarism & UN peacekeeping.
84 Joseph T. Jockel, Canada and international peacekeeping.
85 Helga Björnsdóttir, „Give me some men, who are stouthearted men“.
86 Björn Bjarnason, „Ísland vill sæti í öryggisráðinu“, Morgunblaðið 19. október 2002,
bls. 33.
87 Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Address at the formal opening session of the high-level
roundtable on international cooperation for sustainable development in Caribbean Small
Island Development States, on the 25th of March 2008, Reykjavík: Utanríkisráðuneytið,
2008. Silja Bára Ómarsdóttir hefur bent á að framlag Íslands til UnIFEM hafi á
fyrsta áratug aldarinnar aukist til muna eða frá 117 þúsund dollurum árið 2001 í
854 þúsund dollara 2008.
HelgA BJöRnSdóttiR